Grindavík í undanúrslit – Völtuðu yfir Skallagrím
Íslandsmeistarar Grindavíkur eru komnir í undanúrslit í úrslitakeppni Domino’s deildar karla. Grindavík valtaði hreinlega yfir Skallagrím í Borgarnesi í kvöld, 78-102. Grindavík vann báðar viðureignir þessara liða örugglega og er því komið áfram.
Grindvíkingar hófu leikinn vel og voru 11 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 19-30. Aaron Broussard var hreinlega óstöðvandi í fyrsta leikhluta en hann skoraði 17 stig. Grindvíkingar héldu svo áfram að þjarma að Borgnesingum í öðrum leikhluta, staðan 38-54 í hálfleik.
Það var engin værukærð yfir Grindvíkingum í seinni hálfleik líkt og átti sér stað inn á milli í fyrri leik liðanna á föstudag. Grindvíkingar léku sér hreinlega að Skallagrími sem voru lítil fyrirstaða fyrir Íslandsmeistaranna. 24 stiga sigur staðreynd hjá Grindavík sem er komið áfram í undanúrslit þar sem liðið mætir KR.
Aaron Broussard var stigahæstur eins og oft áður hjá Grindavík. Hann skoraði 23 stig, tók 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Ekki af ástæðulausu að margir telja hann besta erlenda leikmanninn sem leikur í deildinni. Samuel Zeglinski skoraði 20 stig og Jóhann Árni Ólafsson skoraði 14 stig. Stigaskorið dreifðist vel hjá liðinu í kvöld líkt og oft áður í vetur.
Skallagrímur-Grindavík 78-102 (19-30, 19-24, 20-29, 20-19)
Grindavík: Aaron Broussard 23/14 fráköst/7 stoðsendingar/6 stolnir, Samuel Zeglinski 20/6 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 14/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 11, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/4 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 6, Ryan Pettinella 6/5 fráköst, Ólafur Ólafsson 6, Davíð Ingi Bustion 3, Einar Ómar Eyjólfsson 3, Daníel G. Guðmundsson 2/4 fráköst.