Grindavík í bullandi fallbaráttu
Grindvíkingum tókst ekki að hrista af sér falldrauginn í kvöld og þurfa í síðustu leikjunum að berjast fyrir sæti í Pepsi-deild karla í knattspyrnu eftir að þeir töpuðu gegn Fylki í Árbænum í kvöld.
Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill og hvorugu liðinu tókst að skora.
Í þeim seinni var mun meira fjör. Grindvíkingar voru líklegri til að skora og áttu ágæt færi. Engin mörk litu þó dagsins ljós fyrr en á 80. mínútu og þá fóru hlutirnir heldur betur að gerast. Fylkismenn fengu hornspyrnu sem þeir náðu að nýta sér en Davíð Þór Ásbjörnsson átti laglegan skalla í jörðina og í þaknetið.
Strax í næstu sókn fengu Fylkismenn boltann, Ingimundur Níels Óskarsson óð með hann inn í teig, sólaði þar tvo varnarmenn Grindvíkinga, skundaði framhjá markmanninum og renndi boltanum í autt markið. Fylkismenn veittu þarna Grindvíkingum sannkallað rothögg á aðeins tveggja mínútna kafla.
Fylkismenn skutust þar með uppfyrir Grindvíkinga á stigatöflunni en þessi lið ásamt Haukum þurfa í næstum leikjum að berast fyrir tilveru sinni í deildinni.