Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík hafið betur í háspennuleik
Föstudagur 14. nóvember 2008 kl. 11:22

Grindavík hafið betur í háspennuleik



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindavíkingar unnu Íslandsmeistara Keflavíkur í hörkuspennandi leik 80:79 í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í Röstinni í Grindavík gærkvöldi. Keflvíkingar voru lengi í gang en náðu síðan ágætum leik og var mikil spenna á lokamínútum leiksins. Staðan í hálfleik var 39:36 fyrir heimamenn. Grindvíkingar eru í öðru sæti deildarinnar með 12 stig, tveimur stigum á eftir KR, en Keflavík er í 3. sæti með 8 stig.

Grindvíkingar byrjuðu með stórskotasýningu og komust í 16:2 eftir sex mínútna leik. Keflavík skoraði fyrstu körfu leiksins en síðan komu 16 stig í röð hjá heimamönnum. Keflvíkingar voru ekki á því að láta slá sig út af laginu og náðu að minnka forystu heimamanna niður í 3 stig fyrir hálfleik.  

Keflvíkingar komust fljótlega yfir í þriðja leikhluta en Grindvíkingar tóku fljótt frumkvæðið aftur en munurinn var þó aldrei mikill. Eftir þriðja leikhluta var staðan 59:58 fyrir Grindavík. Jafnt var 78:78 þegar innan við tvær mínútur voru eftir. Heimamenn komust síðan í 80:78. Grindvíkingar töpuðu boltanum í næstu sókn og Keflavíkingar gátu jafnað leikinn af vítalínunni, en náðu aðeins að nýta annað skotið, 80:79.  Þá fengu Grindvíkingar tækifæri á að auka muninn en klikkuðu úr báðum skotum sínum af vítalínunni. Gunnar Stefánsson fékk síðan tækifæri á að tryggja Keflvíkingum sigur úr þriggja stiga skoti er leiktíminn var að renna út, en hitti ekki og heimamenn fögnuðu gríðarlega.

Brenton Birmingham skoraði flest stig fyrir Grindavík eða 19 talsins en hann tók þar að auki þrettán fráköst. Páll Kristinsson og Páll Axel Vilhjálmsson voru með sautján stig hvor. Hjá Keflavík var Sigurður Þorsteinsson stigahæstur með 21 stig. Sverrir Þór Sverrisson skoraði nítján og Gunnar Stefánsson 17 stig. Þess má geta að Gunnar Einarsson lék ekki með Keflvíkingum vegna meiðsla og Helgi Jónas Guðfinnsson var ekki með Grindvíkingum þar sem hann er í vinnuferð erlendis.

Myndir/VF.is: Úr leik Grindavíkur og Keflavíkur í Röstinni í gær.