Grindavík hafði betur í jöfnum leik – Keflavík áfram á sigurbraut
Grindavík og Keflavík unnu bæði sína leiki í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í gær. Grindvíkingar tóku á móti Haukum og höfðu betur að lokum eftir jafnan og spennandi leik. Keflvíkingar eru áfram efstar og hafa aðeins tapað einum leik á tímabilinu eftir að hafa sótt sigur gegn Snæfelli í gær.
Grindavík - Haukar 86:83
Það var jafnræði með liðunum frá upphafi þótt gestirnir hafi löngum haft örlítið forskot á heimakonur. Haukar skoruðu sex síðustu stigin í fyrsta leikhluta og leiddu 18:24 þegar annar leikhluti hófst.
Haukar náðu að komast ellefu stigum yfir þegar annar leikhluti var ríflega hálfnaður en Grindvíkingar gáfu þá í og náðu að snúa taflinu sér í vil áður en blásið var til hálfleiks. Grindavík leiddi með þremur stigum í hálfleik (50:47).
Haukakonur náðu aftur að síga fram úr í þriðja leikhluta og komust átta stigum yfir (55:63) en eftir það munaði aldrei miklu á liðunum. Þegar fjórði og síðasti leikhluti fór af stað áttu gestirnir tvö stig (65:67) en liðin skiptust á forystunni í spennandi lokaleikhluta. Það var svo Danielle Rodriguez sem tryggði sigurinn af vítalínunni en hún skoraði fjögur síðustu stig Grindvíkinga úr fimm vítaköstum. Góður þriggja stiga sigur hjá Grindavík (86:83).
Atkvæðamestar heimakvenna voru hin danska Sarah Mortensen sem leiddi Grindavík í stigaskorun með 25 stig auk þess að taka átta fráköst, Eva Braslis var með tuttugu stig og Danielle Rodriguez fimmtán, Rodriguez tók einnig níu fráköst.
Snæfell - Keflavík 67:87
Snæfellingar voru mun ákveðnari í upphafi leiks og náðu að byggja upp ágætis forystu sem var komin í þrettán stig snemma í öðrum leikhluta (30:17).
Þá loks vöknuðu Keflvíkingar af Þyrnirósarblundi sínum og tóku að saxa á muninn. Keflavík leiddi með tveimur stigum í hálfleik (42:44).
Í seinni hálfleik jókst munurinn jafnt og þétt og var tíu stig eftir þriðja leikhluta (53:63). Keflvíkingar bættu tíu stigum við forskotið í þeim fjórða og höfðu öruggan tuttugu stiga sigur að lokum (67:87).
Daniela Wallen og Birna Benónýsdóttir voru atkvæðamestar hjá Keflavík, Wallen með tuttugu stig og Birna átján. Anna Ingunn Svansdóttir og Thelma Ágústsdóttir gerðu þrettán stig hvor og Elisa Pinzan ellefu.