Grindavík grimmari á endasprettinum
Grindavík sigraði Hauka 80-66 í Iceland Express deild kvenna í Röstinni í kvöld. Grindavík situr á toppnum með 26 stig ásamt Keflavík. Leikurinn var jafn og spennandi en Grindavík gerði út um leikinn snemma í fjórða leikhluta.
Haukar byrjuðu betur í leiknum og Grindvíkingar réðu ekkert við Keira Hardy sem skoraði 14 stig í fyrsta leikhluta. Haukar pressuðu Grindavíkurstúlkur hátt en skildu þar á móti eftir glufur í vörninni. Grindavík tók leikhlé um miðjan leikhlutann í stöðunni 9-14 og það virtist hafa sitt að segja því gulir komu ákveðnari tilbaka og náðu að minnka munninn niður í eitt stig, 22-23 áður en leikhlutinn var allur.
Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta. Liðin skiptust á að skora en fljótalega tók Grindavík þó frumkvæðið og leiddi í hálfleik 41-34 og má segja að varnarleikurinn hafi verið það sem skóp forskotið.
Haukastúlkur komu gríðarlega ákveðnar til leiks í seinni hálfleik og voru að hirða öll fráköst báðum megin vallarins. Skotnýting Haukastúlkna var hins vegar ekki nægilega góð, og því náði Grindavík alltaf að halda forskoti. Grindavík hafði ekki skorað í um 3 mínútur þegar Íris Sverrisdóttir kom fersk af bekknum og setti niður þriggja stiga körfu, en eftir það skiptust liðin á að skora. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 55-50, Grindvíkingum í vil.
Það má segja að Grindavíkurstúlkur hafi gert út um leikinn með frábærum kafla á fyrstu og hálfu mínútu fjórða leikhluta. Grindavík fór úr fimm stiga forskoti í 14 áður en Yngvi Gunnlaugsson þjálfari Hauka, tók leikhlé. Talsverð þreyta var farinn að segja til sín í liði Hauka enda er liðið ungt að arum og ekki með sömu breidd og Grindavík. Mest náði Grindavík 22 stiga forskoti í fjórða leikhluta og leyfðu þjálfarar liðanna yngir leikmönnum að leika síðustu þrjá mínútur leiksins. Lokatölur urðu 80-66 og var sigur Grindavíkur aldrei í hættu í lokaleikhlutanum.
Bæði þessi lið leika í undanúrslitum í Lýsingarbikar kvenna og taka Haukar á móti Fjölni á föstudaginn kl 19:15 að Ásvöllum en Grindavík og Keflavík eigast við í stórleik í Grindavík á sunndaginn kl 19:15.
Texti: Jón Júlíus Karlsson, [email protected]
Mynd: Jón Björn Ólafsson, [email protected]