Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík gerði jafntefli við KR
Unnur Stefánsdóttir skoraði fyrsta mark Grindavíkur. Myndir úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 13. ágúst 2021 kl. 09:43

Grindavík gerði jafntefli við KR

Grindavík heldur áfram að gera góða hluti í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu og þær gerðu jafntefli við KR í gær. KR-ingar voru í næstefsta sæti fyrir leikinn og Grindavík í því sjötta en Grindavík hefur heldur betur vent kvæði sínu í kross og hefur nú unnið þrjá og gert eitt jafntefli í síðustu fimm leikjum. Grindvíkingar hafa unnið sig úr botnsætinu upp í það fimmta.

Unnur Stefánsdóttir kom Grindavík á bragðið með fyrsta markinu á 10. mínútu en KR svaraði að bragði (11') og bætti við tveimur mörkum fyrir leikhlé (17' og 37'), staðan 1:3 í hálfleik.

Ekki létu Grindvíkingar slá sig út af laginu við mótlæti heldur mættu þær tvíefldar til leiks í seinni hálfleik. Christabel Oduro minnkaði muninn á 60. mínútu og Helga Guðrún Kristinsdóttir jafnaði mínútu síðar (61'). Staðan orðin 3:3 og það urðu lokatölur leiksins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindavík er í fimmta sæti með fimmtán stig eins og Haukar en betra markahlutfall. Grindavíkingar fjarlægjast stöðug fallsvæðið en þær hafa sýnt framúrskarandi árangur á seinni hluta mótsins.

Oduro hefur verið drjúg við markaskorun Grindvíkinga í sumar, hefur skorað ellefu mörk og er fjórða markahæsta í deildinni.