Grindavík gerði jafntefli við KR
Grindavík heldur áfram að gera góða hluti í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu og þær gerðu jafntefli við KR í gær. KR-ingar voru í næstefsta sæti fyrir leikinn og Grindavík í því sjötta en Grindavík hefur heldur betur vent kvæði sínu í kross og hefur nú unnið þrjá og gert eitt jafntefli í síðustu fimm leikjum. Grindvíkingar hafa unnið sig úr botnsætinu upp í það fimmta.
Unnur Stefánsdóttir kom Grindavík á bragðið með fyrsta markinu á 10. mínútu en KR svaraði að bragði (11') og bætti við tveimur mörkum fyrir leikhlé (17' og 37'), staðan 1:3 í hálfleik.
Ekki létu Grindvíkingar slá sig út af laginu við mótlæti heldur mættu þær tvíefldar til leiks í seinni hálfleik. Christabel Oduro minnkaði muninn á 60. mínútu og Helga Guðrún Kristinsdóttir jafnaði mínútu síðar (61'). Staðan orðin 3:3 og það urðu lokatölur leiksins.
Grindavík er í fimmta sæti með fimmtán stig eins og Haukar en betra markahlutfall. Grindavíkingar fjarlægjast stöðug fallsvæðið en þær hafa sýnt framúrskarandi árangur á seinni hluta mótsins.