Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík gerði jafntefli við botnliðið
Grindvíkingar söknuðu fyrirliða síns, Gunnar Þorsteinssonar, í dag en hann tók út leikbann í leiknum gegn Magna. Úr myndasafni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 26. júlí 2020 kl. 20:52

Grindavík gerði jafntefli við botnliðið

Grindvíkingar fyrsta liðið til að tapa stigi gegn Magna Grenivík

Grindvíkingar léku á Grenivík í dag í áttundu umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu þar sem þeir mættu botnliði Magna. Fyrir leikinn hafði Magni tapað öllum sínum leikjum og aðeins skorað þrjú mörk.

Í fyrri hálfleik tókst hvorugu liði að ná yfirráðum í leiknum, hann einkenndist af baráttu beggja liða á miðjunni en öðru hvoru komu hættulegar skyndisóknir sem vantaði að klára. Skyndisóknir Grindvíkinga voru þó heldur betur útfærðar og öllu hættulegri en heimamanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir því sem leið á hálfleikinn færðist meiri þungi í sókn Grindvíkinga og loks á 37. mínútu fengu þeir hornspyrnu sem Magnamenn áttu í miklum vandræðum með. Sindri Björnsson reyndi skot sem hrökk af leikmanni Magna fyrir Guðmund Magnússon sem átti hörkuskot í stöng. Það var svo Josip Zeba sem náði til boltans og afgreiddi viðsöðulaust í netið, Grindavík búið að brjóta ísinn og komið í forystu.

Skömmu fyrir leikhlé átti Elias Tamborini góða sendingu fyrir markið sem rataði beint á skallann á Guðmundi sem náði góðum skalla rétt framhjá nærstönginni, stórhættulegt færi sem hæglega hefði getað endað í marki.

Fjörugur seinni hálfleikur

Grindvíkingar mættu öflugir til leiks eftir hlé og settu strax mikla pressu á heimamenn. Á 52. mínútu sóttu þeir gulu og komu boltanum fyrir markið þar sem Guðmundur var aleinn á fjærstöng fyrir opnu marki og bætti við öðru marki, 2:0 fyrir Grindavík.

Áfram hélt Grindavík að hafa yfirhöndina en á 64. mínútu náðu Magnamenn góðri skyndisókn sem skilaði marki, 2:1 fyrir Grindavík.

Eitthvað hresstust Magnamenn við markið og komust aðeins betur inn í leikinn sem hafði verið í höndum Grindvíkingar fram að þessu. Magni gerði tvöfalda skiptingu og fimm mínútum síðar áttu þeir hættulega sókn sem var bjargað í horn en Grindvíkingar voru lánsamir að fá ekki dæmda á sig vítaspyrnu. Úr hornspyrnunni barst boltinn út úr teignum þar sem Magnamaður tók viðstöðulausa spyrnu í samskeytin, óverjandi fyrir Vladan. Magnað mark og staðan orðin jöfn.

Grindvíkingar missa mann af velli

Skömmu eftir að hafa misst leikinn niður í jafntefli átti Magni aðra skyndisókn þar sem sending komst inn fyrir vörn Grindvíkinga á framherja Magna sem var við það að komast í gott færi en Sindri renndi sér aftan í hann og fékk að launum beint rautt spjald.

Grindvíkingar þurftu að leika manni færri síðasta korterið en þrátt fyrir það náðu þeir að skora þriðja markið skömmu fyrir leikslok. Grindavík náði að stöðva skyndisókn Magna og bruna sjálfir upp völlinn þar sem Guðmundur Magnússon kom góðri sendingu á fjærstöng og þar mætti Oddur Ingi Bjarnason og afgreiddi boltann í netið.

Heimamenn gáfust ekki upp og lögðu allt undir, pressuðu stíft og þegar fimm mínútur voru liðnar af uppbótartíma fengu þeir hornspyrnu. Allt lið Magna mætti í sóknina og fyrirgjöfin barst inn á markteig þar sem Magni náði að koma honum í netið. Þetta varð síðasta sókn leiksins því um leið og Grindvíkingar tóku miðju blés dómarinn leikinn af.

Grindvíkingar sitja nú í sjötta sæti Lengjudeildarinnar og draumurinn um sæti í efstu deild að ári verður sífellt fjarlægari.