Grindavík gerði jafntefli í lokaheimaleiknum
Grindvíkingar urðu að sætta sig við 1-1 jafntefli gegn botnliði ÍA á Grindavíkurvelli í dag í 21. umferð Landsbankadeildar karla. Grindvíkingar komust yfir á 14. mínútu og var það að verki Gilles Mbang Ondu. Eftir góðan undirbúning frá Scott Ramsey þá fékk Ondo boltann og þrumaði honum upp í þaknetið, óverjandi fyrir Trausta Sigurbjörnsson í marki Skagamanna.
Grindvíkingar voru að skapa sér fleiri færi í fyrri hálfleik en náðu ekki að nýta þau og því var staðan 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik.
Skagamenn komu ákveðnir til síðari hálfleiks og á 51. mínútu var Árni Ingi Pjétusson búinn að jafna leikinn. Skagamenn fengu hornspyrnu og var Árni réttur maður á réttum stað og jafnaði leikinn með skalla úr sinni fyrstu snertingu í leiknum.
Við markið efldust Skagamenn en Grindvíkingar virtust ánægðir með stigið. Skagamenn réðu lögum og lofum og fengu nokkur færi til að komast yfir í leiknum. Óskar Pétursson, markmaður Grindavíkur, átti hins vegar góðan dag á milli stanganna og kom í veg fyrir að Skagamenn færu heim með öll stigin.
Grindvíkingar eru með 28 stig eftir 21. umferð og eru í 8. sæti deildarinnar. Í lokaleiknum halda þeir á Valbjarnavöll í Laugardalnum og etja kappi við Þrótt R.
Staðan í Landsbankadeildinni.
VF-MYND/elg: Grindvíkingar gerðu jafntefli í lokaheimaleiknum í ár.