Grindavík fær Njarðvík í heimsókn í kvöld
-Keflavík fer í Borgarnes
Grindavík tekur á móti Njarðvík í Dominos deild karla í Mustad höllinni í kvöld. Keflavík sækir Skallagrím heim í Borgarnes og hefjast báðir leikirnir kl. 19:15.
Hinn fertugi fyrrverandi landsliðsmaður, Páll Kristinsson, sem leikið hefur með Njarðvíkingum í nokkrum leikjum upp á síðkastið verður ekki með í leiknum í kvöld og Jeremy Atkinson, verðandi leikmaður Njarðvíkur, er ekki kominn til landsins.
Páll Kristinsson hafði lagt skóna á hilluna en féllst á að leika með Njarðvíkingum í upphafi tímabils vegna vandræða þeirra með að fylla stöðu miðherja. Hann þykir hafa staðið sig mjög vel og höfðu margir gaman að því að sjá þennan frábæra leikmann aftur í búning, en hann á glæsilegan körfuboltaferil að baki.