Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindavík engin fyrirstaða fyrir FH
Þriðjudagur 31. ágúst 2004 kl. 23:45

Grindavík engin fyrirstaða fyrir FH

FH-ingar sýndu svo sannarlega mátt sinn og megin þegar þeir mættu til Grindavíkur í kvöld. Þeir lögðu heimamenn með sannfærandi hætti, 0-4, og virðist fátt geta stoppað þá á leiðinni að Íslandsmeistaratitlinum.

Áhorfendur voru varla búnir að koma sér fyrir í sætum sínum þegar fyrsta mark leiksins kom. Jón Þorgrímur Stefánsson smellti boltanum framhjá Alberti Sævarssyni á 4. mín eftir að Freyr Bjarnason hafði framlengt aukaspyrnu Heimis Guðjónssonar á fjærstöngina. Auðveld afgreiðsla af stuttu færi og staðan orðin 1-0.

FH voru mun sterkari aðilinn allt frá byrjun og komst Jón Þorgrímur í kjörið færi til að auka forskotið þegar hann komst einn inn fyrir vörnina. Hann fór hins vegar illa að ráði sínu og Grindvíkingar bægðu hættunni frá.

Á 20. mínútu skoruðu FH-ingar sitt annað mark og var aðdragandi þess afar umdeildur. Dæmd var hendi á Óla Stefán Flóventsson á miðjum vallarhelmingi Grindavíkur, en á meðan Grindvíkingar mótmæltu harðlega tók Jón Þorgrímur spyrnuna og gaf inn á Allan Borgvardt. Hann lék á Albert og sendi boltann í netið, staðan 2-0.

Grindvíkingar urðu fyrir áfalli stuttu seinna þegar Grétar Hjartarson þurfti að fara af velli vegna meiðsla og var ekki á bætandi þar sem Sinisa Kekic var einnig fjarri góðu gamni. Hann var í leikbanni vegna fjögurra gulra spjalda. Þeir sóttu þó í sig veðrið á lokakafla fyrri hálfleiks þar sem þeir náðu upp meira spili en áður, en náðu þó ekki að skapa sér góð færi.

FH-ingar höfðu þó ekki sagt sitt síðasta og voru nærri því að bæta þriðja markinu við fyrir hálfleik. Borgvardt og Jón Þorgrímur áttu hreint magnað samspil upp hægri kantinn og sendu svo á Emil Hallfreðsson inni í teignum en hann náði ekki að nýta færið.

Í seinni hálfleik var aldrei spurning um hvoru megin sigurinn mundi lenda. Gestirnir spiluðu eins og sá sem valdið hefur og voru í öðrum gæðaflokki jafnt í vörn og sókn.

Á 50. mín var mark dæmt af FH vegna rangstöðu en ekki leið á löngu þar til þeir gerðu endanlega út um leikinn. Á 54. mín stakk Jón Þorgrímur boltanum inn fyrir vörn Grindavíkur og Borgvardt nái til hans á undan Alberti. Eftir leikurinn var auðveldur og Daninn knái skoraði annað mark sitt í leiknum, 3-0.

Leikurinn var ansi tilþrifalítill það sem eftir var þar sem úrslitin voru svo gott sem ráðin. Orri Freyr Hjaltalín átti þó ágætis spretti af og til og skallaði knöttinn meðal annars í slá FH-marksins á 72. mín.

Tveimur mínútum síðar ráku Hafnfirðingar síðasta naglann í líkkistu Grindavíkur þegar Tommy Nielsen skoraði úr víti sem var dæmt eftir að Allan Borgvardt féll í teignum eftir viðskipti við Óla Stefán. Dómurinn var ef til vill full harður, en Nielsen brást ekki bogalistin á punktinum, 4-0.

Þrátt fyrir að sigur væri í höfn hættu FH ekki að sækja og pressuðu stíft um allan völl. Staðan breyttist þó ekki og stórsigur FH staðreynd.

Hafnfirðingar eru því í efsta sætinu á ný, þremur stigum á undan ÍBV, en Grindvíkingar eru í sjöunda sæti og enn í mikilli fallbaráttu. Tvær umferðir eru eftir af Landsbankadeildinni.

Eysteinn Hauksson hjá Grindavík var ekki nógu ánægður með spilið hjá þeim í kvöld. „Fyrsta markið kom á okkur eins og reiðaslag og eftir það verður að segjast að FH voru betri en við á öllum sviðum. Við lentum í því að spila sem 11 einstaklingar en ekki sem lið og það þýðir ekki á móti svona klassaliði eins og FH er núna. Við eigum að geta unnið þá en það er ekki hægt með minna en 100% vinnu hjá öllum.“

„Við byrjuðum af krafti og náðum að setja á þá tvö mörk í fyrri hálfleik og ætluðum svo að halda áfram í seinni hálfleik og það gekk upp,“ sagði FH-ingurinn Emil Hallfreðsson í leikslok. „Sjálfstraustið er í botni hjá okkur núna en nú verðum við að snúa okkur að næsta leik og vinna hann.“
VF-myndir/Jón Björn Ólafsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024