Grindavík áfram og Njarðvík 2-1 yfir á móti Val
Grindavíkurkonur voru fyrstar til að tryggja sig í undanúrslit í körfuknattleik eftir sigur í þriðja leiknum gegn Þór Akureyri, 93-75.
Í hinum leik gærkvöldsins vann Njarðvík Val, 92-59 og er með forystu í einvígi liðanna, 2-1.
Grindavík leiddi allan tímann, var fimm stigum yfir í lok fyrsta leikhluta, 25-20 og leiddi með sjö stigum í hálfleik, 47-40. Þórskonur ógnuðu ekki og öruggur sigur staðreynd í lokin, 93-75.
Stigaskor Grindvíkinga var öðruvísi en oft áður, Danielle Rodriguez sem var búin að vera sjóðandi heit í stigaskorun, skoraði bara 8 stig en gaf 11 stoðsendingar. Eve Braslis var stigahæst með 26 stig og tók 10 fráköst, flott tvenna. Hin dansa Sarah Mortensen skoraði 19 stig, fyrirliðinn Hulda Björk Ólafsdóttir var með 14 stig og Ólöf Rún Óladóttir var með 11 stig.
Grindavík er því komið í undanúrslit en ekki er komið á hreint hverjum þær mæta.
Það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda í leik Njarðvíkur og Vals, Njarðvík leiddi allan tímann, 52-34 í hálfleik og lokatölur 92-59.
Stigaskorið skiptist nokkuð systurlega á milli Njarðvíkurkvenna, fimm leikmenn skoruðu tíu stig eða meira;
Ena Viso - 15 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar.
Angela Strize - 14 stig og 4 stoðsendingar.
Selena Lott - 13 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.
Jana Falsdóttir - 13 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar.
Emilie Hasseldal - 11 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar.
Fjórði leikur Njarðvíkur og Vals er á föstudaginn, ef Njarðvík vinnur þá eru þær komnar í undanúrslit og mæta Grindavík.