Grindavík áfram í Subwaybikar
Grindvíkingar eru komnir áfram í Subway-bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir sigur á liði Tindastóls í gær. Úrslit leiksins urðu 96-86 fyrir Grindavík. Leikurinn fór fram í Sauðárkróki.
Tindastóll byrjaði betur í upphafi leiks. Grindvíkingar voru fljótir að minnka muninn er þeir komust í gang og náðu mest 7 stiga forskoti. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var 20-24 fyrir Grindavík. Sá munur hélst framan af öðrum fjórðungi en undir lok hans tóku Grindvíkingar góða rispu þar sem Ólafur Ólafsson setti niður tvær þriggja stiga körfur og Guðlaugur Eyjólfsson eina. Allt í einu voru Grindvíkingar komnir með 15 stiga forskot án þess að Tindastólksmenn fengju rönd við reist. Þá rönkuðu þeir við sér og náðu að saxa á forskot Grindvíkinga sem var 11 stig þegar gengið var til hálffleiks, 52-41.
Grindvíkingar héldu heimamönnum í skefjum lengst af þriðja leikhluta. Þá komust Stólarnir aftur inn í leikinn og minnkuðu forskot Grindvíkinga jafnt og þétt. Staðan í lok þriðja leikhluta var 68-73 fyrir Grindavík.
Grindvíkingar byrjuðu síðasta leikhlutann af krafti og náðu að auka muninn í 10 stig. Þar með höfðu þeir sett upp múr sem heimamönnum tókst aldrei að brjóta það sem eftir lifði leiks.
Darrel Flake var með 21 stig fyrir Grindavík og átta fráköst. Páll Axel skoraði með 20 stig. Ómar Sævarsson var feikna öflugur í fráköstunum hjá Grindavík og hirti 18 slík auk þess að skora 13 stig.
---
Mynd/ Darrel Flake var með 21 stig fyrir Grindavík.