Grindavík á toppnum

Grindavík tók á móti Fylki á Grindavíkurvelli í kvöld í Pepsi-deild karla í knattspyrnu og lokatölur leiksins urðu 2-1 fyrir Grindvíkingum. Brakandi blíða var í Grindavík og rokið fór hægt yfir eða að minnsta kosti hægar en vanalega. Hugsanlega er sumarið komið eða jafnvel á leiðinni eftir afar mikla vætutíð hér á Suðurnesjum og reyndar suðvestur horninu eins og það leggur sig.

Leikurinn byrjaði svakalega en á 5. mínútu kom Hákon Ingi Jónsson Fylkismönnum yfir en vörnin klikkaði eitthvað hjá Grindavík og Fylkir því komið í 0-1 forystu. Fylkir átti hættulegt færi á 12. mínútu og Grindvíkingar heppnir að fá ekki á sig annað mark, lítið annað en fyrsta mark leiksins gerðist á fyrstu 15. mínútum leiksins. Grindavík komst í dauðafæri á 28. mínútu  þegar Sito komst einn á móti markmanni. Aron Jóhannsson komst í gott færi mínútu seinna og fyrsta mark Grindavíkur virtist liggja í loftinu. Bæði lið sóttu stíft á lokamínútum fyrri hálfleiksins og hefði boltinn í raun og veru getað farið inn hjá báðum liðum.

Ekki komu fleiri mörk en mark gestanna úr Árbænum í fyrri hálfleik og Fylkir leiddi með einu marki gegn engu þegar flautað var til hálfleiks en fyrri hálfleikurinn var frekar bragðdaufur.

Markamaður Fylkis átti góða markvörslu gegn Grindavík þegar Sito átti gott skot á markið. Grindvíkingar komu ákveðnir inn í fyrstu mínútur seinni hálfleiksins og áhorfendur kölluðu; „Það liggur í loftinu.“ Grindavík fékk aukaspyrnu á 54. mínútu leiksins en Sam Hewson rann til í skotinu en völlurinn var töluvert blautur og leikmenn runnu mikið til í leiknum. 

Á 60. mínútu fór Nemanja Latinovic út af í liði Grindavíkur og inn á kom Will Daniels, á 61. mínútu fengu Grindvíkingar víti eftir brot á Aroni Jóhanssyni inn í teig og steig Björn Berg Bryde á vítapunktinn. Björn skoraði úr vítaspyrnunni og staðan því orðin 1-1, Sito skaut föstu skoti á markið á 64. mínútu en markmaður Fylkis varði. Sito átti geggjað skot á markið á 74. mínútu og eina spurningin var í leiknum hvort hann ætlaði að skora eftir nokkur góð færi.

Talsvert reyndi á markmann Grindavíkur, Kristijan Jajalo á 79. mínútu þegar Fylkismenn áttu tvær góðar sóknir en Kristijan varði vel. Sito fór út af á 80. mínútu í liði Grindvíkinga og Jóhann Helgi Hannesson kom inn á í hans stað. Grindavík gerði síðustu skiptinguna sína í leiknum þegar Aron Jóhannson fór út af og Alexander Veigar Þórarinsson kom inn á. Grindavík fékk dauðafæri á 88. mínútu þegar Will Daniels átti góðan skalla að markinu en boltinn rétt framhjá. Will bætti um betur þegar hann skoraði mínútu seinna og kom Grindavík yfir með hörkuskoti og staðan því 2-1. Fylkir átti tvær góðar sóknir í uppbótartíma leiksins en náði ekki að nýta þær.

Lokatölur leiksins 2-1 og Grindavík því komið með fjórtán stig í deildinni og situr í efsta sæti eftir leiki kvöldsins. Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi, blaðamaður Víkurfrétta.

 

 

Grindavík- Fylkir