Grindavík á toppnum - Fyrsta tap Keflvíkinga
Fjörið hafið í 1. deild eftir EM hlé
Keflvíkingar töpuðu gegn Haukum 4-3 á útivelli í Inkasso deild karla í fótbolta í gær. Haukar voru mun sprækari og náðu 3-1 forystu í hálfleik en Hörður Sveinsson skoraði mark gestanna frá Keflavík. Þrátt fyrir að Haukar hafi misst mann af velli á 38. mínútu þá virstist það ekki hafa mikil áhrif því þeir komust svo í 4-1 þegar 20 mínútur voru til leiksloka.
Þeir Jónas Guðni Sævarsson og Páll Olgeir Þorsteinsson náðu að klóra í bakkann fyrir Keflavík undir lokin en það reyndist of seint. Fyrsta tap Keflvíkinga í deildinni því staðreynd og sitja þeir í fimmta sæti.
Grindvíkingar og Selfoss gerðu 1-1 jafntefli í Grindavík þar sem Juan Jimenez gerði mark heimamanna sem tylltu sér á toppinn með stiginu en Akureyrarliðin Þór og KA geta bæði komið sér upp fyrir Grindvíkinga í dag nái þau í stig.