Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Annar stórleikur Bríetar þegar Grindavík tapaði naumlega fyrir Val
Bríet Sif Hinriksdóttir átti annan stórleikinn í röð með Grindavík. Mynd/karfan.is
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 9. janúar 2020 kl. 14:45

Annar stórleikur Bríetar þegar Grindavík tapaði naumlega fyrir Val

Grindavíkurstúlkur hafa heldur betur tekið við sér í Domino’s deild kvenna en þær unnu sinn fyrsta leik á nýju ári í Domino's deild kvenna í körfu og töpuðu svo með einu stigi gegn meistaraliði Vals í Grindavík í gærkvöldi. Á sama tíma töpuðu Keflavíkurstúlkur með 22 stiga mun gegn KR á útivelli.

Hið unga lið Grindavíkur kemur vel undan jólafríi, drifið áfram af Bríeti Sif Hinriksdóttur sem skoraði 39 stig gegn Blikum í fyrsta leik ársins hjá þeim. Í leiknum gegn Val sýndu þær líka flestar sínar bestu hliðar og voru nálægt því að vinna toppliðið. Eftir mjög jafnan leik allan tímann var brotið á Jordan Reynolds þegar 3 sekúndur voru til leiksloka. Hún fékk 3 vítaskot en aðeins tvö rötuðu rétta leið og þar með fögnuðu Valkonur sigri með einu stigi 73-74.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bríet Sif átti annan stórleikinn í röð og skoraði 25 stig og tók 11 fráköst og leiddi nýliðana áfram gegn besta liði deildarinnar sem var komið með Helenu Sverrisdóttur aftur í hópinn. Stór hluti Grindavíkurliðsins eru ungar stúlkur og á einum kafla í leiknum voru fjórir leikmenn inn á í einu sem voru 15-16 ára.

Sigurbjörn Dagbjartsson hjá karfan.is fjallaði ítarlega um leikinn og ræddi svo m.a. við Bríeti Sif eftir leikinn.

Grindavík-Valur 73-74 (20-16, 20-19, 19-25, 14-14)

Grindavík: Bríet Sif Hinriksdóttir 25/11 fráköst, Jordan Airess Reynolds 16/10 fráköst/7 stoðsendingar/3 varin skot, Hrund Skúladóttir 10/7 fráköst, Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir 9/5 fráköst, Hekla Eik Nökkvadóttir 6, Elísabeth Ýr Ægisdóttir 5/7 fráköst/6 stoðsendingar, Hulda Björk Ólafsdóttir 2, Sædís Gunnarsdóttir 0, Telma Lind Bjarkadóttir 0, Arna Sif Elíasdóttir 0, Vikoría Rós Horne 0.

Slakur seinni hálfleikur hjá Keflavík

Keflavík hélt í við KR í fyrri hálfleik og staðan í leikhlé var 39-35. Í næstu leikhlutum skoruðu þær aðeins 5 og 7 stig á meðan KR gerði samtals 30. Lokatölur því 69-47.

KR-Keflavík 69-47 (17-15, 22-20, 14-5, 16-7)

Keflavík: Daniela Wallen Morillo 24/14 fráköst/5 stolnir, Katla Rún Garðarsdóttir 5, Irena Sól Jónsdóttir 4, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 4/5 fráköst, Eydís Eva Þórisdóttir 3, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 3, Kamilla Sól Viktorsdóttir 2, Elsa Albertsdóttir 2, Þóranna Kika Hodge-Carr 0/4 fráköst, Eva María Davíðsdóttir 0, Sara Lind Kristjánsdóttir 0, Anna Ingunn Svansdóttir 0.