Grétar íhugar að hætta í boltanum
	 Framherjinn Grétar Ólafur Hjartarsson sem leikur með Reyni Sandgerði íhugar þessa dagana hvort hann ætli að halda knattspyrnuiðkun áfram. Hann sagði í samtali við VF að hann lægi undir feldi og væri ekkert farinn að æfa. Undirbúningstímabilið á Íslandi er með lengra móti og Grétar segir að eftir því sem árin færist yfir þá verði fríið yfirleitt lengra hjá honum.
Framherjinn Grétar Ólafur Hjartarsson sem leikur með Reyni Sandgerði íhugar þessa dagana hvort hann ætli að halda knattspyrnuiðkun áfram. Hann sagði í samtali við VF að hann lægi undir feldi og væri ekkert farinn að æfa. Undirbúningstímabilið á Íslandi er með lengra móti og Grétar segir að eftir því sem árin færist yfir þá verði fríið yfirleitt lengra hjá honum.
Atli Eðvaldsson tók við þjálfun hjá Reyni í haust og Grétar viðurkennir að það sé freistandi að taka eitt tímabil til viðbótar í boltanum. „Eins og staðan er núna þá nenni ég þessu ekki. En þegar grasið fer að grænka þá breytist það kannski.“ Grétar segist vera í góðu ástandi en í gegnum tíðina hefur hann verið nokkuð óheppinn með meiðsli. Þannig að spurningin er einfaldlega hvort löngunin sé til staðar hjá kappanum.
Grétar lék vel með Reynismönnum í fyrra og hann segir gaman að vera kominn á heimaslóðir. Hinn 35 ára gamli framherji, sem er uppalinn í Sandgerði lék síðast með Reyni sumarið 1997, en hefur síðan verið á mála hjá Stirling í Skotlandi, Grindavík, KR og síðast Keflavík.
Grétar lék 23 leik með Reyni í fyrra og skoraði í þeim 12 mörk. Alls á Grétar að baki 200 leiki á Íslandi þar sem hann hefur skorað 85 mörk. Einnig á Grétar tvo landsleiki með undir 21 árs liði Íslands og einn æfingaleik með A-landsliðinu árið 2002 gegn Brasilíu.


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				