Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grannaslagur í Grindavík í kvöld þegar Keflvíkingar koma í heimsókn
Fimmtudagur 10. maí 2012 kl. 10:17

Grannaslagur í Grindavík í kvöld þegar Keflvíkingar koma í heimsókn

- Sex stiga leikur



„Þetta er í raun bara sex stiga leikur ef maður spáir í því, afar mikilvægur. Maður ætlar sér alltaf að vinna Keflavík,“ segir Grindvíkingurinn Alexander Magnússon en það verður sannkallaður víkingaslagur í kvöld í Grindavík þegar heimamenn fá Keflavík í heimsókn í annarri umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu.

Leikir liðanna í fyrra voru litríkir. Liðin unnu þá bæði útileikina. „Þetta hafa í gegnum tíðina yfirleitt verið mjög jafnir leikir. Þeir hafa einkennst kannski meira af baráttu en öðru og við munum búa okkur undir baráttu í þessum leik,“ segir Gunnar Oddsson aðstoðarþjálfari Keflvíkinga sem vonast þó til þess að veðrið leyfi góðan fótbolta. Gunnar segir Keflvíkinga alla jafna leggja upp með að spila góðan fótbolta en hann býst við því að það verði erfitt að brjóta lið Guðjóns Þórðarsonar á bak aftur. „Lið undir hans stjórn eru yfirleitt mjög skipulögð og föst fyrir, þau gefa sjaldan færi á sér. Við teljum okkur geta fundið leiðir til þess að skora á þá“.

Alexander sem lék sem bakvörður í fyrra og skoraði m.a. á skemmtilegan hátt úr víti í einum leiknum hefur verið á miðjunni að undanförnu, segir að Keflvíkingar séu alltaf skeinuhættir en hann er lítið að pæla í liðum andstæðinganna. „Ég hef séð liðið spila og það eru þarna hættulegir menn eins og Guðmundur Steinars og Jóhann Guðmundsson. Það er vonandi að við tökum bara þrjú stigin á heimavelli. en þar segist hann kunna vel við sig. „Ég gegni frekar varnarsinnuðu hlutverki þar en þó fær maður líklega að skjótast fram stöku sinnum.“

Jafntefli hjá báðum liðum í fyrstu umferð

Fyrsti leikur Keflvíkinga gegn Fylki í deildinni var kaflaskiptur að mati Gunnars en hann segir að Keflvíkingar hefðu hæglega getað klárað dæmið í fyrri hálfleik þegar þeir höfðu tak á leiknum. „Eftir að þeir jafna þá kom smá taugatitringur hjá okkur en við færðum þeim þetta mark alveg upp í hendurnar. Ómar sá svo til þess að við fengum svo ekki annað mark á okkur. Þegar uppi var staðið þá vorum við tillölulega sáttir við stigið,“ segir Gunnar. Keflvíkingar hljóta þó að ætla sér fleiri stig í Grindavík?

„Við förum með eitt stig með okkur til Grindavíkur og ætlum að freista þess að sækja hin tvö. Við förum í þennan leik, eins og alla aðra til þess að ná sem mestu út úr honum, það eru hreinar línur.“
Gunnar segir byrjunina á mótinu lofa góðu og að áhorfendur virðist ekki láta kuldann aftra sér að mæta á völlinn. „Það var vel mætt í fyrstu umferðina og vonandi taka Suðurnesjamenn líka við sér,“ sagði Gunnar að lokum.

Alexander var ágætlega sáttur með það að sækja stig í Kaplakrika í fyrsta leik gegn FH en lokatölur urðu þar 1-1. „Það var kannski svekkjandi að missa þrjá punktana eftir að hafa fengið á okkur víti.“ Alexander Magnússon sem var einn af bestu leikmönnum Grindavíkur í fyrra er óðum að jafna sig af meiðslum þessa dagana en hann býst passlega við því að vera klár fyrir grannaslaginn í Grindavík. „Ég fór í speglun fyrir skömmu og mér líður nokkuð vel núna,“ segir Alexander en hann vonast til að komast í liðið fyrir leikinn gegn Keflavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024