Grannaslagur á Keflavíkurvelli
Í kvöld verður grannaslagur af bestu gerð í Landsbankadeildinni þegar Grindavík sækir Keflavík heim, leikurinn hefst kl. 20 á Keflavíkurvelli.
Liðin hafa verið á sæmilegu róli undanfarið og hafa verið að klifra upp töfluna, Keflavík þó sínu hraðar og er sem stendur í þriðja sæti á meðan Grindvíkingar hafa lyft sér upp úr fallsætunum og sitja í sjöunda sæti.
Grindavík hefur einungis tapað einum af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni og hafa verið sérlega stöðugir í vörninni þar sem þeir Óli Stefán Flóventsson og Mathias Jack standa vaktina. Það gæti valdið Keflvíkingum vandræðum því þeir þurfa að skora mörg mörk til að vega upp götótta vörn sína sem hefur ekki haldið hreinu í deildinni í allt sumar og í raun ekki síðan í júlí í fyrra.
Leikir liðanna hafa jafnan verið spennandi og skemmtilegir frá því að Grindavík kom upp í efstu deild árið 1995. Þau hafa mæst 16 sinnum, þar af hafa Keflvíkingar unnið 7 sinnum, Grindvíkingar 6 sinnum og þrisvar hefur orðið jafntefli. Markatalan segir sitt um spennuna sem fylgir þessum leikjum því hún er 23-23.
Fjölmargir leikmenn hafa spreytt sig með báðum liðum í gegnum tíðina og eru í dag nokkrir flakkarar í liðunum. Hjá Grindavík eru þeir Eysteinn Hauksson og Magnús Þorsteinsson meðal fyrrum leikmanna Keflavíkur og Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindavíkur náði frábærum árangri með Keflavík er hann var þar við stjórnvölinn síðustu tvö ár.
Í Keflavíkurliðinu í dag er einungis einn leikmaður sem leikið hefur með Grindavík og er það Gestur Gylfason. Hann verður hins vegar fjarri góðu gamni eftir að hafa fengið sitt þriðja guls spjald í sumar í sínum 200 leik fyrir félagið í síðustu umferð.
Allir á völlinn!