Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grannarnir úr Reykjanesbæ í baráttu um að leika á meðal þeirra bestu
Úr leik Keflavíkur og Víkings í Bestu deild kvenna.
Mánudagur 12. ágúst 2024 kl. 11:23

Grannarnir úr Reykjanesbæ í baráttu um að leika á meðal þeirra bestu

Suðurnesjaliðin í knattspyrnunni voru öll að keppa um helgina og áttu misjöfnu gengi að fagna.

Keflavíkurkonur eru einu fulltrúar Suðurnesjanna í Bestu deildunum en þær hafa átt erfitt sumar til þessa. Þær töpuðu 1-2 á heimavelli fyrir Víkingi og eru neðstar með 9 stig eins og Fylkir en Tindastóll er næsta lið þar fyrir ofan með 12 stig. Það var Simona Rebekka Meijer sem skoraði mark Keflvíkinga á 88. mínútu, minnkaði þá muninn í 2-1.

Í Lengjudeild karla var Suðurnesjaslagur á milli Keflavíkur og Grindavíkur. Keflavík fór með sigur af hólmi, 2-1 og eru í harðri baráttu um að komast aftur á meðal þeirra bestu en þeir eru í 3. sæti með 27 stig, fjórum stigum á eftir ÍBV sem er í 2. sæti en efstir eru Fjölnismenn með 32 stig. Það voru Oleksii Kovtun og Kári Sigfússon sem skoruðu mörk Keflvíkinga og Kwame Quee minnkaði muninn fyrir Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njarðvíkingar eru þriðja Lengjudeildar liðið, þeir gerðu jafntefli á Akureyri á móti Þórsurum, 2-2. Það var Dominik Radic sem skoraði bæði mörk Njarðvíkinga. Njarðvíkingar eru eins og grannarnir frá Reykjanesbæ, í hörðum slag um að komast upp í efstu deild, eru einu stigi á eftir Keflavík.

Í Lengjudeild kvenna eru Grindvíkingar fulltrúar Suðurnesja en þær töpuðu á föstudaginn fyrir Gróttu á heimavelli, 1-2. Það var Sigríður Emma Jónsdóttir sem jafnaði fyrir Grindavík en Grótta skoraði svo sigurmarkið á 70. mínútu. Grindavík er í þriðja neðsta sæti með 14 stig, þremur stigum meira en Selfoss og 9 stigum meira en ÍR sem er í neðsta sæti.

Í 2. deild karla eru tvö Suðurnesjalið, Þróttur úr Vogum og Reynir frá Sandgerði. Þróttur hefur spilað betur, er í 6. sæti með 26 stig og á föstudaginn unnu þeir glæsilegan sigur á forystusauðunum frá Selfossi, 4-1. Það voru þeir Ólafur Örn Eyjólfsson, Jóhann Þór Arnarsson, Ásgeir Marteinsson og Eiður Baldvin Baldvinsson sem skoruðu mörk Vogabúa.

Sandgerðingar í kröppum dansi en Reynismenn eru neðstir með 9 stig, fimm stigum frá liðinu sem er í þriðja neðsta sæti. Reynir tapaði naumlega gegn Víkingi Ólafsvík sem eru í 2. sæti, 2-1. Það var Kristófer Dan Þórðarson sem minnkaði muninn fyrir Reynismenn á 79. mínútu en nær komust Reynismenn ekki.

Víðir úr Garði er í harðri baráttu um að komast upp í 2. deild en þeir eru í 3. sæti, stigi á eftir Augnabliki sem er í 2. sæti. Víðir vann Hvíta riddarann á laugardaginn 0-1 og mátti minnstu muna að leikurinn endaði markalaus, Bessi Jóhannsson skoraði sigurmarkið á sjöttu mínútu í uppbótartíma.

Í 4. deild á RB, lið Reykjanesbæjar, undir högg að sækja en þeir eru neðstir með 8 stig, 5 stigum frá liðinu sem er í þriðja neðsta sæti. Á laugardaginn gerði RB jafntefli við KÁ á útivelli, 3-3. Það voru Roberto Adompai, Mahamadu Ceesay Danso og Ken Essien Asamoah sem skoruðu mörk RB-inga, sá síðastnefndi jafnaði leikinn á fimmtu mínútu í uppbótartíma.

Hafnamenn eru fulltrúar Suðurnesjanna í 5. deild. Þeir eru í harðri baráttu um að komast upp í 4. deild, eru í 3. sæti, stigi á eftir Álftanesi sem er 2. sæti og tveimur stigum á eftir forystusauðunum í Álafossi. Á fimmtudagskvöld unnu Hafnamenn stórsigur á útivelli á móti Úlfunum, 0-5. Einar Sæþór Ólafsson setti þrennu og Max William Leitch og Ragnar Ingi Sigurðsson komu sér líka á blað.