Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grannarimmurnar rjóminn í íslenskum körfuknattleik
Fimmtudagur 1. nóvember 2007 kl. 14:31

Grannarimmurnar rjóminn í íslenskum körfuknattleik

Sæmundur Jón Oddsson varð árið 2001 að hætta körfuknattleiksiðkun sökum álagsmeiðsla en þá var hann einhver frambærilegasti leikmaður þjóðarinnar. Aðeins 18 ára gamall var hann farinn að láta vel að sér kveða í sterku liði Keflavíkur og varð m.a. Íslandsmeistari með liðinu árið 1999. Sæmundur lagði körfuboltaskóna á hilluna en hefur nú dustað rykið af þeim og leikur með Ármanni/Þrótt í 1. deild karla. Í vor útskrifast hann sem læknir frá Háskóla Íslands en Víkurfréttir náðu tali af Sæmundi sem segir tímann sinn hjá Keflavík hafa verið einstaklega skemmtilegan.

 

,,Ég fékk erfiða gerð af álagsmeiðslum sem urðu til þess að ég fékk sprungur í bein fótleggja ásamt krónískum bólgum. Þetta var fyrirbæri sem kemur stundum fyrir hjá maraþonhlaupurum og olli því að ég varð að leggja skóna á hilluna,” sagði Sæmundur sem á fjöldan allan af unglingalandsliðsleikjum að baki sem og glæstan feril með 1981 árgangi Keflavíkur sem hrifsaði til sín flest allt gull sem tönn á festi undir stjórn Jóns Guðbrandssonar. ,,Þetta var skemmtilegur tími, við vorum sterkur árgangur og alla tíð heppnir með þjálfara.” sagði Sæmundur og ber lof á það góða fólk sem vinnur mikilvæga sjálfboðavinnu í kringum körfuknattleikinn. Sæmundur sem lék alls 100 leiki með meistaraflokki Keflavíkur og minnist sérstaklega á nágrannarimmurnar við Njarðvík.

 

,,Það var einstaklega skemmtileg að spila með Keflavík gegn Njarðvík og sérstaklega þegar við urðum Íslandsmeistarar gegn þeim 1999. Þessir leikir eru algjörlega rjóminn í íslenskum körfubolta en hvort ég muni sjálfur leika aftur í úrvalsdeild er erfitt að spá fyrir um,” sagði Sæmundur sem lýkur við læknismenntun sína í vor og hefur í nógu að snúast þar sem hann hefur starfað samhliða námi á slysa- og bráðadeild Landspítalans og stundað rannsóknir á svonefndum stofnfrumum bæði hér heima og erlendis. ,,Þegar kemur að körfunni er alltaf stutt í gamla keflvíska metnaðinn en hvað varðar að reyna aftur fyrir sér í efstu deild, þá hef ég reyndar mörgum öðrum spennandi verkefnum að sinna og læknisstarfinu fylgja jú stundum kvöldvaktir. Þá er gott að vera í jafn sveigjanlegum hóp og skipar lið Ármanns/Þróttar.”

 

Dúkurinn gerði útslagið

 

Ekki alls fyrir löngu rifu Keflvíkingar dúkinn af gólfinu í Sláturhúsinu í Keflavík en allt frá blautu barnsbeini var Sæmi við körfuknattleiksiðkun á dúknum græna sem fór illa með þá marga í Keflavík. ,,Aflfræðin á bak við fjöðrunina í gamla gólfinu var afleit fyrir vaxandi fætur og margir leikmenn lentu í erfiðum álagssmeiðslum á þessum tíma og misalvarlegum,” sagði Sæmundur og nefnir annan unglingalandsliðsmann, Óla Ásgeir Hermannsson, sem þurfti líka að hætta. Þess má geta að í  dag er það krafa af hálfu Körfuknattleikssambands Íslands að liðin í efstu deild hafi á leikvelli með parketi yfir að ráða og árið 2011 verður það orðin skylda.

 

Er að prófa sig áfram

 

Sæmundur þekkir það af eigin reynslu að álagið í 1. deildini er nokkuð ósvipað því sem gerist í úrvalsdeild en hann segir 1. deildina vera sterka í ár og að sínir menn í Ármanni/Þrótti hafi staðið sig prýðisvel það sem af er leiktíðinni.

,,Þetta er góður hópur hjá okkur og margir okkar leikmanna hafa áður verið í úrvalsdeildinni, t.d. Steinar Kaldal, Ólafur Ægisson og Gunnlaugur Elsuson,” sagði Sæmundur en í Gunnlaugi hittir hann fyrir gamlan andstæðing en báðir eru þeir úr 1981 árganginum. Gunnlaugur lék með Tindastól í yngri flokkum og börðust þeir Sæmundur oft af miklum ákafa, nú berjast þeir með bökin saman. ,,Þetta gengur ágætlega hjá okkur og ég er að prófa mig áfram og fylgjast með því hvernig fæturnir virka hjá mér,” sagði Sæmundur sem hefur verið duglegur í ræktinni að undanförnu við að koma sér í gott form. ,,Ég reiknaði það nú einhvern tíman út að það væri um það bil milljón sinnum skemmtilegra að spila körfubolta en hlaupa eins og hamstur á hlaupabretti. Við þessa útreikninga notaði ég vitaskuld háþróaða reikniformúlu,” sagði Sæmundur kátur í bragði.

 

Ármann/Þróttur er í 4. sæti 1. deildar með tvo sigra og tvö töp og næsta föstudag mun Sæmundur hitta fyrir góðvin sinn úr 1981 árgangi Keflavíkur þegar Ármann/Þróttur og Breiðablik mætast. Með Blikum leikur Sævar Sævarsson og hafði Sæmundur þetta um leik föstudagsins að segja: ,,Já alveg rétt, við erum að fara að vinna Sævar Sævarsson og félaga í Blikum á föstudag.”

 

Ekki þarf að fjölyrða um styrkleika Ármanns/Þróttar sem er eingöngu skipað íslenskum

leikmönnum en þar eru margir leikmenn sem hafa gert það gott í úrvalsdeildinni. Ef Sæmundur nær sér í fyrra horf er ekki ósennilegt að hann geti látið verulega að sér kveða í 1. deildinni.

 

[email protected]

 

Mynd: Snorri Örn Arnaldsson Sæmundur í leik gegn Valsmönnum í 1. deildinni á dögunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024