Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grænjaxlarnir með sigur númer tvö
Mánudagur 17. október 2011 kl. 22:02

Grænjaxlarnir með sigur númer tvö

Njarðvíkingar lönduðu öðrum sigri sínum í Iceland Express deildinni í kvöld þegar þeir lögðu Hauka í Ljónagryfjunni 107-91. Cameron Echols fór á kostum í liði grænjaxlana og setti 40 stig og hirti 16 fráköst. Hann var því með 48 framlagsstig í leiknum, hreint magnað. Ungu strákarnir stóðu fyrir sínu en þeir Elvar Friðriksson og Ólafur Helgi Jónsson áttu báðir frábæran leik í kvöld, Elvar skilaði 22 stigum, þar af 5 af 8 í þriggjastiga, auk 5 stoðsendinga en hann var öryggið uppmálað í hlutverki leikstjórnandans. Ólafur Helgi setti niður 4 af 6 þriggjastigaskotum sínum og skilaði 18 stigum í hús. Travis Holmes var ekki sem verstur en hann skoraði 21 stig og stal auk þess 6 boltum.

Einungis komu 6 stig frá öðrum leikmönnum en þessum fjórum en samt keyrðu Njarðvíkingar á átta leikmönnum sem allir voru að spila vel.

Leikurinn var jafn og spennandi í upphafi og leikinn var hraður og skemmtilegur körfubolti sem að féll vel í ginið á troðfullri Ljónagryfjunni. Njarðvíkingar voru í örlitlu basli með varnarfráköstin hjá sér og Haukar voru að hitta vel. Njarðvíkingar voru líka heitir í sóknarleiknum og staðan var 27-28 að loknum 1. leikhluta.

Njarðvíkingar settu í annan gír í 2. leikhluta og unnu hann með 11 stiga mun, 31-20 en þar fór fremstur í flokki Echols sem var kominn með 19 stig í hálfleik en þá var staðan 58-48 fyrir heimamenn.


Sama vísan var kveðin í 3. leikhluta og mestur varð munur Njarðvíkinga 22 stig. Sigurinn var aldrei í hættu í síðari hálfleik og það sem ekki var í lagi í upphafi leiks hjá Njarðvíkingum bættu þeir jafnt og þétt og sýndu á kölfum stórskemmtilegan körfubolta, leikgleðin var heldur ekkert slor sem og stuðningurinn úr stúkunni.

Næsta verkefni Njarðvíkinga verður ansi strembið en þá fara þeir í Vesturbæinn og mæta Íslands- og Bikarmeisturum KR.

Mynd Eyþór Sæmundsson: Echols var hálf meðvitundarlaus í kvöld og setti niður skot í öllum regnbogans litum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024