Gott að vakna sem bikarmeistari á sunnudögum
Segir Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar
Njarðvíkingurinn Teitur Örlygsson fer fyrir Stjörnumönnum í úrslitaleik karla. Hann hefur einu sinni áður farið sem þjálfari í Laugardalshöll en það var árið 2009 þegar Stjarnan sigraði sterkt KR-lið í eftirminnilegum leik.
„Maður hefði viljað fara í þennan leik undir öðrum kringumstæðum að þessu sinni,“ segir Teitur en Stjarnan hefur ekki átt góðu gengi að fagna síðustu misseri. Liðið hefur tapað síðustu fjórum deildarleikjum sínum. Nú síðast tapaði liðið fyrir Njarðvíkingum og Teitur segir að Garðbæingar sakni Marvins Valdimarssonar sem hefur verið fjarverandi síðustu þrjá leiki. „Sjálfstraustið hefur oft verið meira. Það er nú verið að kappkosta við það að rífa upp stemningu og gleyma því sem er að baki.“ Teitur segir að Marvin sé ekki enn byrjaður að æfa og það sé erfitt að vera án eins besta leikmanns deildarinnar að mati Teits.
Grindavíkurliðið trónir á toppi deildarinnar eins og staðan er í dag og Teitur segir helst að varast sterka Bandaríkjamenn í liði þeirra gulklæddu.
„Þeir Sammy Zeglinski og Aaron Broussard eru burðarásar í Grindavíkurliðinu. En þegar þeir eiga svo slæman dag þá stíga aðrir leikmenn upp og klára leiki fyrir þá. Þeir eru ofboðslega vel mannaðir. Það er nánast enginn veikur hlekkur hjá þeim,“ segir Teitur. Hann segir Stjörnumenn leitast eftir því að finna taktinn aftur eftir slæmt gengi.
„Við höfum verið víðs fjarri. Á góðum degi eru við með jafn gott lið og Grindvíkingar.
Teitur segir að allt sé nú gert til að koma stemningu í liðið og að undanförnu hefur liðið farið saman að borða og stundað jóga svo fátt eitt sé nefnt.
„Við erum ákveðnir í að mæta til leiks og láta Grindvíkinga hafa vel fyrir hlutunum.
Ég held að flestir séu á því að Grindvíkingar séu líklegri fyrirfram ef miðað er við gengi liðanna að undanförnu. En við ætlum að selja okkur dýrt.“
Teitur þekkir orðið nánast hverja fjöl í Laugardalshöll og þaðan á hann að mestu góðar minningar.
„Það er ofboðslega skemmtilegt að koma í Höllina. Bæði sem leikmaður og þjálfari. Sem betur fer eru flestar minningarnar jákvæðar þaðan. Það er nánast ólýsanleg tilfinning og mikið spennufall. Ég borða lítið og sef lítið fyrir þessa leiki ef ég á að segja eins og er. Þó svo að spennufallið sé ekki vellíðunartilfinning þá er gott að vakna á sunnudögum sem bikarmeistari,“ sagði Teitur að lokum.