Gömlu gildin taka við: Viðtal við formann KKDN
Njarðvíkingar standa á krossgötum um þessar mundir. Körfuknattleikslið félagsins hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku þar sem máttarstólpar liðsins síðasta áratuginn eða svo hafa lagt skóna á hilluna. Leikmenn eins og Brenton Birmingham, Páll Kristinsson og Friðrik Stefánsson sem hafa fagnað titlum með liðinu og verið meðal bestu leikmanna úrvalsdeildarinnar síðan um aldamótin eru hættir að stunda íþróttina. Leikmenn eins og Jóhann Árni Ólafsson, Guðmundur Jónsson, Kristján Sigurðsson og Egill Jónasson hafa leitað annað. Félagið hefur tekið þann pól í hæðina að notast eingöngu við unga og óreynda leikmenn sem uppaldir eru hjá félaginu en einnig hafa þeir þegar ráðið til sín tvo erlenda leikmenn en þeir erlendu leikmenn sem léku með liðinu í fyrra munu ekki snúa aftur.
„Það eru ákveðin tímamót hjá Njarðvíkingum núna. Nýja stjórnin sem tók við núna í febrúar fór af stað með ákveðin markmið og ákveðna hugsjón og hafa hugsað sér að fara ákveðna leið í þessu. Sú leið hentar kannski ekki öllum,“ segir Jón Júlíus Árnason formaður körfuknattleiksdeildar UMFN. Hver er sú leið? „Það eru gömlu góðu gildin, að spila fyrir fánann og UMFN og við munum ekki koma til með að borga leikmönnum okkar laun, menn fá leikmannasaminga en engin laun verða greidd. Við vissum svo sem að þegar þessi stefna var tekin yrðu einhver brottföll þó svo að við hefðum vonast til þess að halda sem flestum leikmönnum. Við ætlum okkur að setja boltann í hendurnar á ungu strákunum úr unglinga- og drengjaflokk. Þar er á ferðinni samheldinn hópur sem þekkir lítið annað en að æfa stíft og mikið. „Við byrjuðum að æfa 2. maí og munum æfa næstu 10 vikur þar sem æft er 8 sinnum á viku, bæði lyftingar og ýmsar körfuboltaæfingar. Mæting hefur verið nánast 100% en þetta er 12 manna hópur. Þetta verður kjarninn næsta tímabil að sögn Jóns. Njarðvíkingar hafa þegar gengið frá samningum við tvo erlenda leikmenn. Annar er bakvörður sem getur leyst nokkrar stöður og svo einn miðherji. Þeir eru báðir bandarískir en í flestum tilfellum eru þeir leikmenn ódýrari og oftast betri en þeir frá Evrópu.
Hver eru markmið félagsins?
„Markmiðin eru alltaf sú sömu, við höfum það mikla trú á þessum ungu strákum. Ef að maður á hins vegar að vera raunsær þá erum við ekki að fara að landa titlum á næsta ári. Það verður erfitt að keppa við hin liðin sem hafa safnað að sér reyndum leikmönnum. Fyrr en síðar verðum við þó komnir í þá stöðu,“ segir Jón en félagið horfir til framtíðar. „Við höfum teiknað upp 5 ára plan fyrir bæði karla- og kvennaboltann. Fyrsti liðurinn í þeirri áætlun er að fá þessa ungu leikmenn inn í liðið en bæði þjálfarar og þessir leikmenn skrifuðu undir þriggja ára samning á dögunum. Nú er félagið með tvo þjálfara, hvernig er það að virka? „Mig minnir að þetta sé í fyrsta sinn sem félag hefur tvo aðalþjálfara, yfirleitt er annar aðstoðarþjálfari eða eitthvað slíkt. En nú erum við með tvo þjálfara sem ég vil meina að séu tveir af fjórum bestu þjálfurum landsins, þeir eru líka alveg með það á hreinu hver hlutverkaskipti þeirra eru. Hluti af þessari stefnu okkar er líka að hafa allan aðbúnað sem bestan hvað varðar þjálfun og annað. Aðstaðan hjá okkur er virkilega góð, flottur lyftingarsalur og við erum með skot- og frákastvélar og menn geta yfirleitt æft í salnum þegar þar eru dauðir tímar.
Hvað finnst þér um launamál í íslenskum körfubolta?
„Mér finnst kannski í góðu lagi, ef menn eru í hópi bestu leikmanna landsins, þá fái þeir umbun fyrir það. Ástandið hjá okkur í Njarðvík og eflaust hjá fleiri liðum var þannig að þetta var komið út í vitleysu, hreinlega orðið of mikið. Mér fannst jafnvel að menn væru ekki að leggja sitt af mörkum í samræmi við launin sem þeir voru að fá. Þá er ég að tala um það að taka aukaæfingar og leggja aukalega á sig, menn voru jafnvel orðnir áskrifendur að laununum. Hluti af þessu vandamáli er bara röng uppeldisstefna hjá UMFN síðustu 10 árin eða svo. Þó að þú sért orðinn 20 ára og kominn í meistaraflokk þá þýðir það ekki að þú fáir einhvern pening, leikmenn eiga að spila fyrir klúbbinn og vilja skara framúr sem getur svo leitt til þess að menn komist á þann stall að geta fengið greitt fyrir körfubolta á erlendri grundu. Við viljum breyta þessari þróun og erum að því.“
Sagan segir að fjárhagsstaðan hjá félaginu hafi ekki verið góð. „Ástandið er langt frá því að vera gott, klúbburinn hefur sennilega ekki verið í þessari stöðu áður hvað varðar fjárhaginn, það er ekkert launungarmál. Það ýtir undir það að við getum ekki lengur borgað leikmönnum, við þurfum að taka reksturinn í gegn og skera niður og það er nánast bara hægt að gera í launum leikmanna. Það er þó ekki ástæðan fyrir því af hverju við erum að fara út í þetta en sú staðreynd að staðan sé svona hjálpaði okkur að taka þessa ákvörðun. Við fimm sem erum í stjórn höfðum rætt þetta þegar við ákváðum að bjóða okkur fram og vissum ekki hver staðan væri nákvæmlega, þannig að þessi stefna er ekki einungis tilkomin af illri nauðsyn.“
Hvað varð til þess að fjárhagurinn varð svona hjá Njarðvíkingum?
„Þetta er ekkert að gerast á einu til tveimur árum, það sem gerðist er að auglýsingatekjur og styrkir minnkuðu um 40% og ástandið í þjóðfélaginu hefur sín áhrif. Menn sáu fram á þessa þróun og við hefðum þurft að stíga fyrr inn í varðandi leikmannasamninga og lækka þá, það hefði þurft að gerast miklu fyrr. Við ætlum hins vegar ekki að benda á einhverja sökudólga staðan er bara svona og við reynum að vinna úr þessu og koma klúbbnum á rétt ról. Í fyrra komu nokkrir erlendir leikmenn og það var kostnaðarsamt. Á ákveðnum tímapunkti vorum við í fallbaráttu og menn urðu smeykir, og því var þessi leið farin. Einn erlendur leikmaður var reyndar borgaður af hópi velferðarmanna félagsins með fjáröflun. Það hefur verið gert í gegnum tíðina en við viljum jafnvel frekar núna að þannig fjármagn skili sér inn í félagsstarfið, ekki bara tímabundið í einn leikmann.
Njarðvík er eitt af flaggskipunum í körfuboltanum
„Mér hefur fundist hluti af vandamálunum hjá UMFN vera sá hvað margar neikvæðar einingar eru í bæjarfélaginu. Það hafa allir skoðun á klúbbnum, sem er fínt, en neikvæðnin hefur verið háværari undanfarið. Við ætlum því að opna dyrnar og ef einhver er með eitthvað neikvætt að segja þá getur hann komið sinni skoðun á framfæri við okkur. Í íslenskum körfubolta er Njarðvík eitt af flaggskipunum, sagan segir til um það. Við ætlum okkur að koma liðinu á réttan kjöl aftur. Maður getur samt ekki alveg séð fyrir hvernig næsta tímabil verður.
Einn daginn hugsa ég að þetta verði gott tímabil alveg í það að hugsa til þess að þetta verði jafnvel ströggl fram að síðasta leik, að halda sér í deildinni. Ég viðurkenni það alveg að það getur vel gerst. En strax að loknu næsta tímabili, sama hvernig það endar er ég viss um að við förum að sjá miklar framfarir.“
„Í fyrra og árið áður þá var UMFN ekki lið að mínu mati, heldur tólf einstaklingar í grænum búning að reyna að vinna leiki og liðsandinn fannst mér ekki vera til staðar. Við sjáum það hins vegar núna þegar við erum búnir að æfa í mánuð að einingin og stemmingin er allt önnur. Félagsmaður sem vill styðja liðið kemur og horfir á leik og þú skynjar að allir á vellinum eru í fýlu og þá nennir þú síður að hvetja slíkt lið.
Hefði viljað að Jóhann og Guðmundur tækju slaginn með okkur
Jón segir erfitt að segja til um af hverju staðan hafi verið orðin svona en þar spili margt inn í.
„Hjörtur Einarsson og Rúnar Ingi Erlingsson voru fljótir að gefa það út að þeir vildu vera áfram, Egill Jónasson og Kristján Sigurðsson voru strax farnir að huga að öðru en Jóhann Árni Ólafsson og Guðmundur Jónsson voru spurningarmerki. Persónulega var ég að vonast til þess að þeir yrðu áfram í UMFN, alla vega annar þeirra. Mér fannst núna vera tímapunktur fyrir þá að taka að sér leiðtogahlutverk í þessu verkefni okkar. Mér hefur fundist að þeir hafi verið að bíða eftir því að verða leiðtogar hjá liðinu, nú þegar reyndir leikmenn eru hættir og þeir næstir í goggunarröðinni. Ég hefði viljað að þeir hefðu verið meiri menn og tekið slaginn með okkur. En ég get aftur á móti skilið það að menn leiti þangað sem þeir fá greitt fyrir að spila körfubolta. Það var erfitt að sjá á eftir Guðmundi og Jóhanni. Hefði dugað fyrir þá að fá einhverja skiptimynt? Það var freistandi að gauka pening að þeim til að halda þeim, en við vorum búin að setja þessa stefnu og verðum að standa við hana.“
Jón segir engin leiðindi gagnvart þessum strákum þó svo að hann hefði óskað þess að þeir hefðu verið um kyrrt.
Finnur fyrir jákvæðum viðbrögðum
„Í fyrrasumar vorum við með æfingar fyrir hluta af þessum hóp sem er að koma upp. Það vakti mikið umtal og athygli innan körfuboltahreyfingarinnar, og ungir og metnaðarfullir leikmenn á landinu fylgdust með því sem var að gerast og við höfðum fengið fyrirspurnir frá ungum leikmönnum sem eru að fara í framhaldsskóla og vilja koma til UMFN. Við sjáum það bara í jákvæðu ljósi að fólk horfi til okkar og meti það starf sem hér er verið að vinna. Eftir að það byrjaði að spyrjast út hvað er að fara að eiga sér stað hérna þá finnst mér viðbrögð fólks vera afar jákvæð. Maður hefur hitt fólk sem hefur ekki mætt á leiki svo árum skiptir en vilja núna kaupa ársmiða. Fólk hefur trú á verkefninu og finnst þetta spennandi.“