Golfklúbbur Vatnsleysustrandar 20 ára
Það var mikil og góð stemmning á Kálfatjarnarvelli á Vatnsleysuströnd á laugardag þegar Golfklúbbur Vatnsleysustrandar fagnaði 20 ára afmæli sínu. Af því tilefni var blásið til afmælisgolfmóts og var leikið með Texas Scramble leikfyrirkomulagi.
GVS stendur á tímamótum því hugmyndir um stækkun vallarins í 18 holur eru langt á veg komnar og búið er að samþykkja teikningu af nýja hluta vallarins í deiliskipulag hjá sveitarfélaginu Vogum. Hugmyndir um stækkun vallarins eru stórtækar en áformað er að reisa hótel við hlið vallarins í framtíðinni.
Andrés Guðmundsson, formaður GVS, segir þó að hægt verið farið af stað við stækkun vallarins. „Þetta er stór tímamót fyrir okkur og það er gaman að hafa tekið þátt í þessari uppbyggingu sem hér hefur orðið. Við höfum unnið í 17 ár að byggja upp þessar níu holur sem við höfum í dag og ætlum að taka okkur tíma til að stækka völlinn. Við gerum ráð fyrir að þessi uppbygging verði samþykkt í bæjarstjórn í september byrjun og í kjölfarið fáum við framkvæmdaleyfi. Við munum gera þetta í smáum skrefum og fjölga brautunum hægt og bítandi. Það er óljóst hvenær völlurinn verður 18 holur en vonandi sem fyrst.“
Í Afmælishófinu voru fimm einstaklingar heiðraðir fyrir starf í þágu golfsins á Vatnsleysuströnd. Bergþóra Sigmundsdóttir, stjórnarmaður GSÍ, sæmdi þrjá gullmerki sambandsins og tvo silfurmerki. Gullmerki hlutu; Andrés Guðmundsson, Jón Ingi Baldvinsson og Jörundur Guðmundsson. Silfurmerki hlutu; Húbert Ágústsson og Magnús Árnason.