Golf í desemberblíðu í Leirunni

Kylfingar hafa mætt vel í Leiruna undanfarna daga enda veður verið með endemum gott. Ekkert frost er í jörðu á Hólmsvelli og því ekkert því til fyrirstöðu að taka hring.
Ekki er þó leikið á sumarflatir en á þessu ári voru þær opnar frá apríl til loka októbermánaðar eða um sjö mánuði. Síðasta vetur var líka óvenju mildur og þá var leikið á sumarflatir á helmingi vallarins nær allan tímann.
Farið verður yfir stöðu mála hjá Golfklúbbi Suðurnesja á aðalfundi hans nk. mánudagskvöld. Reksturinn gekk að sögn Sigurðar Garðarssonar, formanns ágætlega og klúbburinn skilar hagnaði.



 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				