Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góður sigur Reynismanna
Ivan Prskalo skoraði tvö mörk fyrir Reyni í stórsigri þeirra á Leikni Fáskrúðsfirði. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 7. ágúst 2021 kl. 18:13

Góður sigur Reynismanna

Þróttarar áfram efstir í annarri deild karla

Nú þegar fimmtán umferðum er lokið í annarri deild karla í knattspyrnu eru Þróttarar úr Vogum efstir með fjögurra stiga forystu. Njarðvíkingar fjarlægjast sæti í næstefstu deild eftir að hafa aðeins náð jafntefli gegn Kára sem er í næstneðsta sæti deildarinnar, þeir sitja nú í fimmta sæti. Reynismenn unnu hins vegar góðan sigur á Leikni frá Fáskrúðsfirði í dag og eru komnir í sjöunda sæti með tuttugu stig.

Reynir - Leiknir F. 4:1

Það voru Leiknismenn sem voru sterkari framan af á Sandgerðisvelli og Reynismenn voru í eltingaleik megnið af fyrri hálfleik. Þeir komust þó betur inn í leikinn eftir því sem leið á hann og komust yfir skömmu fyrir leikhlé með marki úr víti. Það var Hörður Sveinsson sem steig á vítapunktinn og setti boltann örugglega í netið (41'), 1:0 fyrir heimamenn í hálfleik.

Hörður skorar örugglega úr víti til að koma heimamönnum yfir í leiknum gegn Leikni.

Í seinni hálfleik var í meira jafnræði á með liðunum og Ivan Prskalo tvöfaldaði forystu Reynis eftir góða sókn (60'). Hann var aftur á ferðinni nokkrum mínútum síðar og kom Reynismönnum í 3:0 (69').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tíu mínútum fyrir leikslok eygðu Leiknismenn smá vonarglætu þegar þeir minnkuðu muninn í 3:1 (80') en fyrirliðinn Strahinja Pacik rak smiðshöggið á góðan sigur Reynis með marki á 90. mínútu.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og má sjá fleiri myndir í myndasafni neðst á síðunni.


Haukar - Þróttur 1:2

Þróttarar sóttu Hauka heim á Ásvelli í gær og lentu undir snemma í leiknum (5'). Dagur Ingi Hammer var ekki lengi að jafna leikinn (9') og Dagur var svo aftur á ferðinni á 33. mínútu þegar hann skoraði kom Þrótturum yfir og þannig stóðu leikar í hálfleik, 1:2.

Í seinni hálfleik fékk fyrirliðinn Andy Pew að líta tvö gul spjöld og þar af leiðandi rautt (54') svo Þróttara voru orðnir manni færri og ríflega hálftími eftir af leiknum. Það kom hins vegar ekki að sök, þeir héldu út og fleiri mörk voru ekki skoruð.

Í leikslok fékk Hermann Hreiðarsson, þjálfari Þróttar, að líta annað gula spjaldið sitt í leiknum og var því bæði þjálfara og aðstoðarþjálfara Þróttar vísað af velli.

Dagur Ingi skoraði bæði mörk Þróttar en Hermanni Hreiðarssyni var sýnt rauða spjaldið. Þróttur hefur fjögurra stiga forystu á toppnum og virðast hafa tekið stefnuna á sæti í næstefstu deild í fyrsta sinn. 

Njarðvík - Kári 2:2

Njarðvíkingar lentu í vandræðum með lið Kára sem er í fallsæti. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Kenneth Hogg Njarðvík yfir (50') en Kári jafnaði skömmu síðar (59').

Hogg var aftur á ferðinni á 69. mínútu og leit lengi vel út fyrir að hann hefði tryggt heimamönnum sigur en á 4. mínútu uppbótartíma jöfnuðu Káramenn leikinn og hirtu stig úr leiknum.

Kenneth Hogg skoraði tvö mörk fyrir Njarðvík en það dugði ekki til.

Reynir - Leiknir F. (4:1) | 2. deild karla 7. ágúst 2021