Góður sigur í Sandgerði
Reynir Sandgerði sigraði Ægi 2-0 í B-riðli 3. deildar í kvöld. Frábært veður var til knattspyrnuiðkunar og ljóst að Sandgerðingarnir kunna vel við sig í blíðunni. Reynismenn eru nú á toppi B-riðils með 19 stig eftir 9 leiki.
Georg Birgisson gerði fyrsta mark Reynis í upphafi leiks en heimamenn byrjuðu með látum. Sandgerðingar stjórnuðu leiknum og átti Ólafur Ívar Jónsson ákjósanlegt marktækifæri þegar hann prjónaði sig í gegnum Ægisvörnina en ætlaði sér um of og markvörður Ægismanna náði til knattarins á undan honum.
Staðan því 1-0 í hálfleik Reyni í vil.
Gestirnir spiluðu stíft og voru fastir fyrir en glufa kom á vörn þeirra þegar um 70 mínútur voru liðnar af leiktímanum. Guðmundur Gísli Gunnarsson gerði þá annað mark Reynis og þar við sat.
Danilo Radoman, nýr markvörður Sandgerðinga, lék sinn fyrsta leik í kvöld með liðinu og stóð sig með prýði og átti nokkur mikilvæg inngrip í leiknum þegar Ægismenn sóttu að.
„Það var gott að halda hreinu í kvöld og Danilo lofar góðu. Næsti heimaleikur okkar verður mjög mikilvægur en hann er gegn KFS. Ég tel að sá leikur sé úrslitaleikurinn um efsta sætið í þessum riðli og við verðum hreinlega að vinna hann en jafntefli í þeim leik yrði enginn dauðadómur,“ sagði Gunnar Oddsson, þjálfari Reynis, í samtali við Víkurfréttir í kvöld.
Staðan í deildinni
VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]