Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góður sigur hjá Reyni í fyrsta leik Íslandsmótsins
Laugardagur 12. maí 2012 kl. 10:44

Góður sigur hjá Reyni í fyrsta leik Íslandsmótsins

Grétar Ólafur Hjartarsson byrjar vel



Reynismenn nældu í flottan sigur í 2. deild karla í knattspyrnu í gær en þeir unnu 2-1 sigur á HK með mörkum frá markahróknum Grétari Ólafi Hjartarsyni. Hér að neðan er umfjöllun um leikinn sem birtist á heimasíðu Reynismanna.

Stundum er sagt að knattspyrna sé leikur tveggja hálfleikja og það átti svo sannarlega við í Sandgerði á föstudagskvölið. Ekki var nóg með að leikur liðanna breyttist á milli hálfleika heldur breyttust aðstæður úr sól og léttri golu yfir í rigningarsudda og sunnan kalda.

Reynismenn voru beittari í byrjun leiks á góðum N1-vellinum. Strax á annari mínútu skaut Guðmundur Gísli Gunnarsson rétt fram hjá marki HK eftir fallega sókn Reynismanna. Rétt um fímm mínútum seinna kom gamla kempan Grétar Ólafur Hjartarson heimamönnum yfir með stórglæsilegu marki. Gestirnir hreinsuðu fyrirgjöf beint í fæturnar á Grétari sem afgeiddi boltan viðstöðulaust í markið með frábæru skoti. Kópavogspiltarnir virstust aðeins vera að ná áttum þegar Grétar bætti öðru marki við um miðjan fyrri hálfleikinn. Hann fékk þá góða stungusendingu inn fyrir vörn HK og náði að stinga varnarmenn gestanna af á löngum spretti og afgreiða knöttinn í netið hjá Beiti Ólafssyni markverði. Bláklæddir HK-ingar voru máttlausir það sem eftir lifði hálfleiks en gott bit í leik Reynis.

Gestirnir mættu mun ákveðnari í rokið og kuldan í síðari hálfleik og minnkaði Bjarki Már Sigvaldason muninn með góðum skalla eftir hornspyrnu á 58. mínútu. Þrátt fyrri að vera meira með boltann gékk HK-ingum hins vegar erfiðlega að komast í gegnum vörn Reynis en að sama skapi voru sóknaraðgerðir heimamanna bitlausar. Þegar rúmar 15 mínútur voru til leiksloka fékk HK-ingurinn Ingi Þór Þorsteinsson rautt spjald fyrir að veitast að Jóhanni Magna Reynismanni, en það hafði þó lítil áhrif á gang leiksins. Á síðustu mínútunum hefðu Sandgerðingar getað bætt við marki, en Egill Jóhannsson skaut fram hjá af stuttu færi eftir gott upphlaup Birkis Freys Sigurðarsonar upp vinstri kanntinn. Nokkrum mínútum síðar var bakvörðurinn ungi kominn í sturtu stuttu á undan félögum sínum þegar hann fékk sitt annað gula spjald í leiknum á lokamínútunni.

Niðurstaðan var sanngjarn 2-1 sigur Reynisliðsins sem virðist mæta sterkt til leiks í baráttuna í 2. deildinni. Ungt HK-liðið þarf hins vegar að vera beittara en það var á N1-vellinum ef það ætlar sér að vera með í toppbaráttunni. Næsti mætir Reynir liði Ýmis í bikarkeppninni. Sá leikur fer fram í Fagralundi í Kópavogi miðvikudaginn 16. maí og hefst kl. 20:00. Sigurliðið úr þeirri viðureign fer áfram í 32-liða úrslit bikarsins. Næsti deildarleikur Reynis er hins vegar á Njarðtaksvellinum í Reykjanesbæ laugardaginn 19. maí kl. 14:00 þegar Njarðvíkingar verða sóttir heim.

Mynd: Grétar lék með Keflvíkingum í fyrra en er nú kominn á heimaslóðir og virðist kunna vel við sig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024