Góður sigur að Ásvöllum
Grindavíkurstúlkur sigruðu Hauka, 70-82, í fyrstu umferð Iceland Express-deild kvenna í körfuknattleik að Ásvöllum í gær.
Grindvíkingar voru sterkari allt frá upphafi og höfðu náð 16 stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 10-26. Í hálfleik var staðan orðin 29-47 og þrátt fyrir að Haukar söxuðu eilítið á forskotið í seinni hálfleik var sigurinn aldrei í hættu.
Jerica Watson átti stórleik fyrir Grindavík og skoraði 31 stig ásamt því að taka 13 fráköst. Annar nýr leikmaður, Hildur Sigurðardóttir, átti einnig góðan leik með 19 stig og 12 fráköst, en nýtti skotin sín ekki mjög vel. Þá má geta framlags hinnar 15 ára gömlu Ölmu Rutar Garðarsdóttur, sem skoraði 14 stig, þar af fjórar 3ja stiga körfur.
Hjá Haukum var Kesha Tardy, fyrrum leikmaður Grindavíkur, allt í öllu og skoraði 20 stig og tók 18 fráköst. Helena Sverrisdóttir lék með en gat ekki beitt sér af fullu sökum meiðsla en skoraði 12 stig.
VF-mynd/Hallgrímur Indriðason