Góður liðsauki fyrir UMFN
Nýliðar UMFN í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik hafa fengið góðan liðsstyrk fyrir átök komandi vetrar, en Ólöf Helga Pálsdóttir er komin til liðsins.
Ólöf Helga er 24 ára og hefur alla tíð leikið með Grindavík þar sem hún hefur verið lykilmaður í vörn og sókn auk þess sem hún hefur verið í landsliðshópi Íslands og leikið 3 leiki með A-liði Íslands.
Njarðvíkingar hafa fullan hug á að festa sig aftur í sessi sem úrvalsdeildarlið, en þær hafa ekki verið í efstu deild eftir leiktíðina 2004-05. Undir stjórn Unndórs Sigurðssonar hefur þetta unga lið hins vegar tekið miklum framförum. Þær stóðu sig t.d. vel á Landsmóti UMFÍ á dögunum og sigruðu í öllum sínum leikjum nema gegn Grindavík.