Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góður gangur í golfíþróttinni á Húsatóftum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 4. júní 2022 kl. 07:48

Góður gangur í golfíþróttinni á Húsatóftum

Fjölgun í Golfklúbbi Grindavíkur og ljúffengar veitingar í golfskálanum

Suðurnes skarta nokkrum glæsilegum golfvöllum og einn þeirra er Húsatóftavöllur í Grindavík. Golfklúbbur Grindavíkur (GG) fagnaði 40 ára afmæli í fyrra en klúbburinn hefur verið í mikilli sókn síðan Helgi Dan Steinsson tók við stjórnartaumunum.

Mikil fjölgun hefur verið í klúbbnum, sérstaklega hafa grindvískar konur verið duglegar að stíga fyrstu skrefin á golfvellinum en það er hellings pláss fyrir nýja meðlimi, bæði frá heimahéraði og frá höfuðborginni en GG býður upp á fjaraðilarársgjald, þ.e. að ef viðkomandi kylfingur er í golfklúbbi annars staðar þá getur hann borgað aukaaðildargjald í GG sem er lægra en venjulegt ársgjald meðlima.

Ári eftir að Helgi tók við stjórnartaumunum tók Anton Sigurðsson við rekstri veitingasölu skálans og hafa veitingar í golfskálanum verið rómaðar en auk kylfinga eru ferðamenn á Reykjanesi velkomnir. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Helgi Dan segir að síðustu misseri hafi verið lærdómsrík.

„Þetta er búið að vera mjög lærdómsríkur tími, klúbburinn hefur gengið í gegnum ansi miklar hrakningar og má þar helst nefna hamfaraflóð, bæði árið 2020 og nýliðinn vetur var sömuleiðis erfiður. Ég hóf störf í ársbyrjun 2020 og var ekki búinn að vera í starfi nema í tvær vikur þegar stærsta flóð síðan 1914 reið yfir bakkana við fimm brautir af þeim átján á Húsatóftavelli. Ofan í flóðið bættist síðan vel þekkt veira svo það verður seint sagt að byrjun mín hafi flokkast undir ágætis byrjun – en eftir að hreinsun á bökkunum lauk má segja að leiðin hafi bara legið upp á við. Heimsóknir í heimsfaraldri náðu hæstu hæðum þegar kylfingar fóru ekki utan í golf. Þá hefur jörð skolfið all svakalega.“

Það getur verið vandasamt að hitta flatirnar á golfvelli Grindvíkinga en víða umlykur hraunið þær og er fljótt að refsa kylfingum.

Vörubíll á skálann

„Árið í fyrra byrjaði kannski ekkert sérstaklega því við Grindvíkingar upplifðum gífurlega jarðskjálfta og var oft fróðlegt að vera hér í golfskálanum, stundum hélt ég hreinlega að vörubíll væri að keyra yfir skálann. Eins og allir vita þá enduðu þessir skjálftar á því að eitt stykki eldgos byrjaði við bæjardyrnar og var það meira og minna í gangi allt síðasta sumar og má segja að það hafi verið magnað að spila golf í Grindavík og sjá „Gosa“ stíga upp en í töluverðan tíma hagaði gosið sér á þann máta að það hóf upp raust sína á u.þ.b. fimm mínútna fresti, þá gægðust eldglærurnar upp fyrir fjöllin og blöstu við kylfingum, hreinlega mögnuð sjón!“

Samhliða framkvæmdastjóra stöðu GG þá sinnir og stýrir Helgi vallarumhirðu Húsatóftarvallar. Hann er ekki menntaður í þeim fræðum en hefur verið duglegur að leita sér ráðgjafar en fróðir menn segja að völlurinn hafi sjaldan litið eins vel út – þ.e.a.s. völlurinn fyrir ofan veg en ágangur sjávar hefur vissulega sett strik í reikninginn á brautunum við sjóinn. Ein flötin, sú fimmtánda, lenti sérstaklega illa í klóm Ægis en lagfæring hefur gengið vel og er í raun magnað hversu vel sú flöt lítur út í dag. Vissulega kom einhver sandur á bakkana en Helgi vill meina að kylfingar hafi gott af því að spreyta sig á slíkum aðstæðum. 

Meistaramótið vinsælt

Hvernig lítur sumarið út og hvaða mót verða í gangi?

„GG hefur lengi verið með öfluga innanfélags mótaröð í gangi, svokölluð stigamót en tólf slík mót eru leikin yfir sumarið og telja átta bestu. Sigurvegari viðkomandi móts fær 35 stig og svo koll af kolli en grindvískir kylfingar eru mjög ánægðir með þetta mótahald. Þar fyrir utan höldum við mörg glæsileg mót og t.d. verður hið vinsæla fyrirtækjamót, Möllerinn, spilað en það mót er haldið til minningar um hjónin Jóhann og Elísabetu Möller sem voru meðal frumkvöðla golfs í Grindavík. Í þessu móti senda grindvísk fyrirtæki tveggja manna lið til leiks og er leikinn betri bolti. Þetta mót hefur alltaf verið vinsælt. GG mun halda sveitakeppni 3. deildar karla í ágúst, Meistaramót GG er nokkurs konar jólahátíð okkar og svona mætti lengi telja, það verður nóg um að vera hjá okkur í sumar.“

Um 300 meðlimir eru í Golfklúbbi Grindavíkur en til samanburðar eru um þrjú þúsund meðlimir í Golfklúbbi Reykjavíkur.

„Það hefur verið fjölgun hjá okkur undanfarin ár, sérstaklega hafa konurnar tekið vel við sér og það er frábært. Sömuleiðis er öflugt unglingastarf hjá okkur en börn og unglingar upp að átján ára aldri eru með frítt árgjald, æfa auk þess frítt undir leiðsögn þjálfara en þetta held ég að sé einsdæmi á Íslandi.“

Hetjutenór og góður matur

Anton sér um veitingarnar á Húsatóftavelli.

Hetjutenórinn og veitingamaðurinn Anton Sigurðsson tók við rekstri golfskálans síðasta sumar og kom það fyrir að Anton sem er hörkusöngvari, tæki netta aríu fyrir matargesti en hann er frábær söngvari og listakokkur.

„Ég byrjaði þrettán ára að kokka, var eflaust snarofvirkur krakki og var sendur í starfsnám á Sjávarperluna sem í dag er Salthúsið. Þar byrjaði ég að kokka og hef ekki litið við síðan má segja. Hef eldað hér og þar en tók við rekstri golfskálans í fyrra og líst virkilega vel á mig hér. Sumarið í fyrra var fínt en mig grunar að árið í ár verði mun betra. Þær breytingar sem klúbburinn og ég fórum í í fyrra voru frábærar, má þá helst nefna pallinn en á góðviðrisdögum er æðislegt að setjast þar niður eftir góðan hring og njóta útsýnisins yfir góðum veitingum.

Ég legg mikið upp úr því að vera með flottan matseðil en hægt er að fá for-, aðal- og eftirrétt. Hamborgarinn er nú venjulega vinsælastur eftir hring en líka samlokur. Það er nokkuð mikið um að hópar komi, stundum heilu rúturnar og ég reyni að sinna því eins vel og ég get. Í raun má segja að hér sé opinn veitingastaður frá 1. maí til 1. september. Við opnum fyrir klukkan átta á morgnana og er alltaf heitt á könnunni og ný smurt. Auglýstur opnunartími eldhússins er til 21:30 en auðvitað stend ég vaktina lengur ef þurfa þykir.“

Aðstaðan í eldhúsinu var tekin í gegn í fyrra og er kokkurinn ánægður með útkomuna.

„Ég nota hana til að undirbúa veislur úti í bæ, t.d. hafði ég nóg að gera í fermingunum um daginn og get í raun boðið veislur fyrir hvaða tilefni sem er. Yfir veturinn geta hópar komið hingað í golfskálann en sömuleiðis býð ég upp á að koma með veislumatinn þangað sem er óskað.“

Þar sem um golfskála er að ræða mætti halda að einu viðskiptavinirnir séu golfarar en því fer víðs fjarri.

„Það kom mér skemmtilega á óvart hversu mikið rennerí er en þetta er auðvitað ofboðslega fallegt landslag. Frábærar gönguleiðir eru hér allt í kring en hér áður fyrr þegar fólk þurfti að ganga eða fara á hestum, þá urðu til göngustígar eins og Prestastígur og Brauðstígur, Árnastígurinn er frá Grindavík að Þorbirni og þaðan er frábær gönguleið, Skipastígur sem liggur að Reykjanesbæ, mjög algengt er að rekast á gönguhópa þaðan um helgar. Grindavíkurbær gerði frábæran hjólastíg sem liggur frá Bótinni í Grindavík alla leið að golfvellinum og koma hjólarar  því hingað í stríðum straumum og er oft kátt á hjalla þegar golfarar, göngugarpar og hjólreiðafólk hittist í skálanum hjá mér.“

Og oft er glatt á hjalla í góðu veðri á pallinum góða.

„Oft verður ansi heitt á pallinum og þá er nú gott að gæða sér á góðu freyðivíni og ostabakka, nú eða einum ísköldum.“

„Oft verður ansi heitt á pallinum og þá er nú gott að gæða sér á góðu freyðivíni og ostabakka, nú eða einum ísköldum,“ segir veitingamaðurinn Anton Sigurðsson.