Góður fyrri hálfleikur ekki nóg hjá Njarðvík
Njarðvík mátti sætta sig við tap, 101-80, fyrir rússneska liðinu CSK-VVS Samara í Áskorendabikarkeppni Evrópu í körfuknattleik í dag.
Njarðvíkingar áttu lengi vel í fullu tré við heimamenn, voru reyndar yfir 23-24 á tímabili í fyrri hálfleik. Rétt fyrir hálfleik var staðan jöfn 45-45 en Rússarnir voru yfir þegar liðin gengu inn í búningsklefana, 50-46.
Í upphafi seinni hálfleiks náðu þeir þó góðum kafla þar sem þeir gerðu 13 stig á móti 1 stigi Njarðvíkinga og náðu góðu forskoti eftir það sem Njarðvíkingar náðu ekki að brúa.
nton Birmingham átti góðan leik og fór fyrir Njarðvíkingum þar sem hann gerði 28 stig. Jeb Ivey var með 21 stig og Friðrik Stefánsson var með 9. Igor Beljansk lenti í miklum villuvandræðum og náði ekki að sýna sitt rétta andlit, enda lék hann aðeins í 10 mínútur.
Rússneski landsliðsmaðurinn Nikita Shabalkin gerði 23 stig fyrir Samara og Omar Cook var með 17 stig eins og Kelvin Gibbs.
Þrátt fyrir að miðherjarnir Egill Jónasson og Beljanski léku aðeins í 15 mínútur samtals stóðu Njarðvíkingar sig vel í fráköstunum gegn mun hávaxnari andstæðingum og verður fróðlegt að sjá hvernig reiðir af þegar Samaramætir hingað til lands.
Þess má geta að ferðalag Njarðvíkinga var afar erfitt, enda er ekkert lið í keppninni lengra burtu frá Íslandi en Samara, sem liggur nálægt landamærum Rússlands og Kasakstan ef það glöggvar lesendur.
Tölfræði leiksins
VF-mynd úr safni. Brenton Birmingham stóð upp úr í liði Njarðvíkur í dag.