Góður árangur Suðurnesjakvenna á Þrekmeistaramóti Íslands
Fimm fræknar dömur úr Líkamsræktarstöðinni Lífsstíl urðu Íslandsmeistarar í liðakeppni á Þrekmeistaramóti Íslands sem lauk um helgina. Mótið fór fram í Íþróttahöllinni á Akureyri.
Keppnislið Lífsstíls saman stóð af Kristjönu Gunnarsdóttur, Katrínu Karen, Maríu Óladóttur, Helenu, Ólafíu og Maríu Kristínu en þær tóku einnig þátt í einstaklingskeppni kvenna. Suðurnesjamenn skipuðu þrjú af efstu sætunum i einstaklingskeppni kvenna, Inga Sigríður Harðardóttir varð í 2. sæti og Kristjana Gunnarsdóttir varð í 3 sæti í opnum flokki kvenna. Ólafía Bragadóttir varð í 3 sæti í flokki 39 ára og eldri.
Alls kepptu 132 keppendur frá æfingastöðvum víðsvegar af landinu. Pálmar Hreinsson frá Reykjavík og Harpa Hlín Jónsdóttir frá Ólafsfirði sigruðu í opnum flokkum einstaklinga.
„Við kepptum síðast í vor og lentum þá í öðru sæti, þessi titill um helgina var okkar þriðji,“ sagði Kristjana Gunnarsóttir. „Við erum búnar að æfa grimmt síðan í ágúst en keppnin harðnar með hverju árinu. Það var ein breyting á liðinu okkar í ár, Helena kom inn fyrir Ernu Lind sem gat ekki keppt því hún var stödd erlendis,“ sagði Kristjana í samtali við Víkurfréttir í dag.
VF-mynd/ Sigurliðið Fimm Fræknar