Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góður árangur ÍRB á IM50
Mánudagur 20. mars 2006 kl. 16:01

Góður árangur ÍRB á IM50

Sundfólk ÍRB náði sérlega góðum árangri á innanhússmeistaramótinu í 50m laug nú um helgina. Sundmenn ÍRB unnu alls til sjö Íslandsmeistaratitla og eitt af þremur Íslandsmetum einstaklinga á mótinu kom frá ÍRB-manni, Birki Má Jónssyni.

Árangur Birkis Más sem er einstaklega glæsilegur ber hæst afreka ÍRB á mótinu. Á laugardeginum setti hann glæsilegt Íslandsmet í 200m flugsundi og reið þar með á vaðið fyrir aðra einstaklinga á mótinu. En alls féllu þrjú einstaklingsmet á mótinu.

Með þessum stórkostlega árangri tryggði hann sér sæti í afrekslandsliði Íslands. Hann staðfesti síðan þann árangur með frábæru sundi í 200m skriðsundi á sunnudeginum þar sem hann kom fyrstur í mark, og aftur undir lágmarki afrekslandsliðs SSÍ. Erla Dögg Haraldsdóttir náði einnig lágmörkum inní afrekslandslið SSÍ með mjög góðum árangri í 200 og 400m fjórsundi.

Einnig náðu þrír ungir sundmenn úr ÍRB lágmörkum inní unglingalandslið SSÍ og munu þeir keppa á móti í Luxemborg í lok apríl. Það voru þau Helena Ósk Ívarsdóttir, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson og Kristinn Ásgeir Gylfason.

Gunnar Örn Ólafsson sem er nýlega gengin í raðir ÍRB bætti á mótinu sitt eigið Íslandsmet í 400m fjórsundi um fimm sekúndur í flokki S14. Gunnar Örn og Jóna Dagbjört Pétursdóttir sem einnig er nýlega komin í hóp ÍRB munu síðan keppa á Íslandsmóti fatlaðra um næstu helgi.

Íslandsmeistarar ÍRB á IM 50 2006

Birkir Már Jónsson:
Íslandsmeistari í 400m skriðsundi, 200m flugsundi og 200m skriðsundi.

Erla Dögg Haraldsdóttir:
Íslandsmeistari í 200 og 400m fjórsundi.

Hilmar Pétur Sigurðsson:
Íslandsmeistari í 1500m skriðsundi.

Karlasveit ÍRB í 4 x 100m fjórsundi: Davíð Hildiberg Aðalsteinsson,
Gunnar Örn Arnarson, Birkir Már Jónsson og Hilmar Pétur Sigurðsson.

Aðrir verðlaunahafar ÍRB á IM 50 2006.

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson: Brons í 50m baksundi, silfur í 200m bak, og brons í 100m bak.
Gunnar Örn Arnarson: Brons í 200 bringu.
Helena Ósk Ívarsdóttir: Brons í 200m bringusundi og silfur í 100m bringusundi.
Hilmar Pétur Sigurðsson: Brons í 400m skriðsundi
Jóna Helena Bjarnadóttir: Brons í 800m skriðsundi.
Marín Hrund Jónsdóttir: Brons í 400m fjórsundi og 200m flugsundi.
Sigurður Freyr Ástþórsson: Brons í 200m flugsundi.

Karlasveit ÍRB í 4 x 200m skriðsundi: Bronsverðlaun, sveitina skipuðu Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Gunnar Örn Ólafsson, Birkir Már Jónsson og Hilmar Pétur Sigurðsson.
Karlasveit ÍRB í 4 x 100m skriðsundi: Bronsverðlaun, sveitina skipuðu Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Gunnar Örn Ólafsson, Birkir Már Jónsson og Hilmar Pétur Sigurðsson.

Mynd: Birkir náði frábærum árangri á mótinu og sést á myndinni með bronsverðlaun frá Smáþjóðaleikunum í Andorra.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024