Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góður árangur hjá blakdeild Keflavíkur
Þriðjudagur 20. mars 2018 kl. 13:20

Góður árangur hjá blakdeild Keflavíkur

Frábær helgi er að baki hjá blakdeild Keflavíkur sem urðu deildarmeistarar í 3. deild karla og 5. deild kvenna um síðastliðna helgi. Þar sem tólf lið eru í 5. deild kvenna, var liðunum skipt upp í tvo úrslitariðla, eftir stöðu liðanna í riðlinum fram að þessu móti. Efstu sex fóru í A úrslit og kepptu um deildarmeistaratitilinn. Keflavík fór inn í þann riðil sem fjórða besta liðið, en þar sem öll lið byrjuðu núna á núll stigum var möguleikinn alltaf fyrir hendi.

Keflavík tapaði eftir oddahrinu í fyrsta leik gegn Aftureldingu en liðið fékk stig í hrinu tvö sem reyndist mikilvægt. Síðasti leikur mótsins var gegn Hrunamönnum og var sá leikur úrslitaleikur. Þar áttu Keflavíkurstúlkur góðan leik og voru einbeittar frá fyrstu mínútu. Í þeim leik var Sæunn Svava með stórleik, þar sem hún átti 18 uppgjafir í röð og sá til þess að það var aldrei nein spenna í lokahrinunni sem Keflavík vann 25-4.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Maður er enn á bleiku skýi, þó við færum inn í þessa úrslitakeppni sem lið í fjórða sæti og töpum fyrsta leik þá hafði ég alltaf trú á okkur. Það voru veikindi og smávægileg meiðsli í hópnum, en allt gekk upp stelpurnar voru dásamlegar“ sagði Svandís Þorsteinsdóttir fyrirliði Keflavíkurkvenna.

Karlalið Keflavíkur tók ekki þátt í úrslitakeppni og byrjuðu helgina í efsta sæti. Þjálfari liðsins, Michal, sleit hásin en hann er einnig leikmaður og þurfti liðið að gefa tvo leiki um helgina vegna þess.
Hjörtur Harðarson, fyrrum leikmaður Keflavíkur í körfu, kom inn sem fimmti maður. Eftir stormasama helgi og hagstæð úrslit Keflavík í vil tókst liðinu að landa deildarmeistaratitlinum með sigri gegn Haukum sem og endaði sá leikur 2-0.
„Ég vissi strax hvað hafði gerst þegar Michal meiðist og hugsunin sem fór af stað hjá mér var ekki falleg. Það hefði verið auðvelt að gefast upp en við gerðum það ekki. Dagskipunin fyrir sunnudaginn var bara að klára okkar leiki og vona það besta. Strax eftir sigurinn gegn Haukum þá vissum við ekki hvað hafði gerst, ekki fyrr en Haukarnir óskuðu okkur til hamingju. Frábær tilfinning eftir algjöran tilfinningarússíbana sem þessi helgi var“, sagði Einar Snorrason fyrirliði Keflavíkur sáttur.

Blakdeild Keflavíkur fagnar fimm ára afmæli þann 26. mars nk. en félagið hefur verið í góðri uppbyggingu frá stofnun þess.