Góður árangur á haustmóti ÍRB
Haustmót ÍRBí sundi gekk vel en þar nýttu sundmenn félagsins tækifærið til þess að slá Íslandsmet, ná lágmörkum á ÍM25 og Euro meet ásamt því að ná sér í reynslu í því að synda langsund. Allir yngstu krakkarnir á mótinu (Háhyrningar) syntu 400 skrið eða 1500 skrið. Hin unga og efnilega Eva Margrét sem er 8 ára synti 1500 skrið og stóð sig alveg frábærlega vel. Hún setti ÍRB met í 200, 400, 800 og 1500 skrið allt í einu sundi.
Á mótinu voru nokkur met loksins slegin. Elsta metið sem féll var slegið af einni af eldri stelpunum, Íris Ósk Hilmarsdóttir bætti ÍRB met Eydísar Konráðsdóttur í 100 baksundi kvenna frá árinu 1997.
15-17 ára stelpurnar Aleksandra, Ólöf Edda, Birta María, Sunneva Dögg og Íris Ósk slógu met sem boðsundsveit úr Ægi átti síðan 2006 í 4x100 fjórsundi (25 m laug) og 4x200 skrið (í 50 m laug). Sunneva setti í leiðinni nýtt Njarðvíkurmet í opnum flokki sem Erla Dögg Haraldsdóttir átti síðan 2007 og ÍRB telpnamet síðan 2012.
Ungu stelpurnar þær 11-12 ára stóðu sig líka vel. Stefanía, Aníka Mjöll, Matthea og Klaudia slógu Íslandsmet í meyjaflokki sem ÍRB átti síðan 2005 í 4x50 skrið (25 m laug) og í 4x100 skrið og 4x100 fjór (50 m laug) en sveit frá ÍRB átti þau síðan 2012. Stefanía setti líka nýtt ÍRB met í 100 skrið í fyrsta sprettinum í boðsundinu en það met átti Soffía Klemenzdóttir síðan 2005 og var Stefanía aðeins hálfri sekúndu frá Íslandsmetinu í meyjaflokki.