Góðar og slæmar fréttir í kvennakörfunni
Njarðvík gerði góða ferð til Reykjavíkur í dag þegar þær lögðu KR-stúlkur að velli í 1. deild kvenna í körfuknattleik, 63-72, eftir framlengdan leik. Með sigri heimastúlkna gegn meisturum Keflavíkur í síðasta leik héldu margir að KR-ingar væru komnar á beinu brautina eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum. Njarðvíkurstúkur mættu þá til leiks með baráttuandann í lagi og unnu upp forystu heimastúlkna í seinni hálfleik og voru nærri því að tryggja sér sigur á lokasekúndum venjulegs leiktíma þegar staðan var 53-53. Fyrirliði Njarðvíkur Auður Jónsdóttir misnotaði þá tvö vítaskot en það kom ekki að sök vegna þess að Njarðvík átti framlenginguna með húð og hári og unnu góðan sigur sem tryggði þeim toppsæti deildarinnar.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Auður, fyrirliði Njarðvíkur: „Í framlengingunnni skiptum við yfir í svæðisvörn og lokuðum algerlega á þær. Þjálfarinn okkar Andrea Gaines átti líka stórleik og skoraði 30 stig, tók 9 fráköst og stal 12 boltum í leiknum.“
Gaines var besti leikmaður vallarins án nokkurs vafa en Díana Jónsdóttir átti líka góða innkomu þegar Njarðvíkingar voru enn undir að stigum og setti nokkrar mikilvægar körfur fyrir liðið og endaði leikinn með 13 stig.
Að loknum leikjum dagsins eru Njarðvíkingar í efsta sæti ásamt ÍS, en það hefði fáum dottið í hug fyrir leiktíðina þar sem þeim var spáð fimmta og næst-neðsta sæti í deildinni.
Keflavík tapaði á heimavelli fyrir liði ÍS í 1. deild kvenna í kvöld með 75 stigum gegn 81. Þetta var annað tap Keflavíkur í röð, en í síðustu umferð biðu þær lægri hlut gegn KR.
Skemmst er frá að segja að ÍS voru betri mestallan leikinn og samkvæmt Hirti Hjartarsyni þjálfara var þeim algerlega slátrað í fráköstunum í kvöld og ÍS sýndu af sér miklu meiri baráttuanda. „Það er greinilegt að vatnsgusan gegn KR var ekki nóg til þess að vekja liðið. Það er stundum eins og leikmenn haldi að þær séu áskrifendur að stigum bara vegna þess að þær eru taldar með besta mannskapinn.“ sagði Hjörtur og var hreint ekki ánægður með frammistöðu liðsins.
Erla Þorsteinsdóttir var komin aftur í liðið eftir meiðsli og skoraði 17 stig og Birna Valgarðsdóttir skoraði 15.
Hjá gestunum var Stella Rún Kristjánsdóttir atkvæðamest með 26 stig og Svandís Sigurðardóttir átti góðan leik undir körfunni og tók 10 fráköst.
Grindavík tapaði fyrir ÍR á útivelli í dag 71-54. Skarð var fyrir skildi hjá Grindvíkingum þar sem hvorugur leikstjórnenda þeirra var í hópnum í kvöld. Hvort sem því var um að kenna eða ekki, gekk sóknarleikur liðsins mjög illa í leiknum og þær hittu einungis úr u.þ.b. 24% tveggja stiga skota sinna. Eins og fyrirfram var búist við áttu Grindavíkurstúlkur í miklum erfiðleikum undir körfunni þar sem ÍR hefur hávaxnara liði á að skipa og tóku heimastúlkur mun fleiri fráköst. Eplunus Brooks átti góðan leik í dag og skoraði 19 stig og tók að auki 19 fráköst og Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 15 og tók 10 fráköst.
Í liði Grindavíkur voru Ólöf Pálsdóttir og Petrúnella Skúladóttir stigahæstar með 12 stig og Jovana Stefánsdóttir skoraði 11 stig.