Góð veiði í Seltjörn
Nú er kominn rúmur mánuður síðan að stangveiði hófst í Seltjörn. Tæplega 2000 silungum hefur þegar verið sleppt í vatnið og vikulega er nýjum fiski sleppt í vatnið. Veiði hefur verið góð og hið sama má segja um aðsókn útivistarfólks að svæðinu.Að sögn Jónasar Péturssonar, staðarhaldara á Seltjörn, hefur veiðin gengið vonum framar en frá opnun, þann 8. apríl sl., hafa veiðst um 580 silungar. „Þar af eru um 540 regnbogasilungar, 30 urriðar og um 5 bleikjur. Meðalþyngd fiskanna er ríflega tvö pund“, segir Jónas.Straumflugur og spúnar eru mest notaðir í vorveiðina en vinsælustu straumflugurnar eru Mickey Finn, Whiskey, Þingeyingur og Nobbler svartur. Vinsælustu spúnarnir eru hins vegar svartur Tobí og Reflex rauður.„Straumur fólks lá hingað um páskana, þrátt fyrir kulda, en Seltjörn var þá ísilögð alla morgna og vatnshiti um ein gráða. Nú lítur út fyrir hlýnandi veður og vætutíð sem er ávísun á betri töku í vatninu“, segir Jónas og vill um leið benda útivistarfólki, sem leggur leið sína í Sólbrekkur, á að ganga snyrtilega um skóginn og hlífa viðkvæmum gróðri.