Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góð þátttaka frá UMFN á Landmót UMFÍ á Akureyri og Sauðárkróki
Fimmtudagur 13. ágúst 2009 kl. 10:16

Góð þátttaka frá UMFN á Landmót UMFÍ á Akureyri og Sauðárkróki

Þann 9. til 12. júlí sl. var haldið á Akureyri 26. landsmót Ungmennafélags Íslands. Fyrsta mótið var haldið á Akureyri árið 1909 og var því um 100 ára afmælismót að ræða. Stór hópur frá Ungmennafélagi Njarðvíkur keppti f.h. félagsins á mótinu eða 86 keppendur. Þá fylgdi um 200 manna stuðningsmannahópur keppendunum á mótið. Alla dagana var sól og blíða þannig að óhætt er að segja að veðrið hafi leikið við mótsgesti sem skemmtu sér vel í leik og keppni frá morgni fram á kvöld innblásnir hinum sanna ungmennafélagsanda. Árangur félagsins á mótinu var hinn prýðilegasti og í heildarstigakeppninni varð félagið í 7 sæti en 24 félög og héraðssambönd tóku þátt í mótinu.


Um verslunarmannahelgina hélt svo hópur 43 keppanda ásamt fylgdarliði sem taldi um 170 foreldra og systkini á unglingalandsmótið sem að þessu sinni var haldið á Sauðárkróki. Öll aðstaða til keppni var hin prýðilegasta en ekki er nú hægt að segja að veðrið hafi verið upp á sitt besta. Víst er þó að veðrið hafði ekki mikil áhrif á keppendur sem gengu allflestir alveg uppgefnir til náða seint á kvöldin eftir að hafa keppt í nokkrum greinum frá morgni fram á kvöld. Gaman var að sjá hvernig hinir mörgu foreldrar sem mættu á mótið með börnum studdu vel við börn sín á mótinu ásamt þjálfurum og starfsmönnum mismunandi deilda félagsins. Árangur á mótinu var hinn prýðilegasti þó óhætt sé að segja að það sé nú það sem minnstu máli skipti heldur umfram allt að mótið er heilbrigð skemmtun þar sem foreldrarnir koma saman með börnum sínum.


Er það mál forráðamanna UMFN að vel hafi til tekist með undirbúning og framkvæmd mótanna og eiga allir sem hönd lögðu þar á plóg miklar þakkir skyldar fyrir framlag sitt.


Næsta landsmót UMFÍ verður haldið árið 2013 á Selfossi og næsta unglingalandsmót verður haldið á Grundarfirði um verslunarmannahelgina. Markmið félagsins er að við stefnum að því að gera enn betur og mæta ennþá fleiri á næstu landsmót með einkunnarorð félagsins að leiðarljósi: Bolti gegn böli  Hreysti til hagsældar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024