Góð stemmning og sigur í Grindavík
Grindvíkingar sýndu í gær að þeir eiga ekki heima í neðri hluta Lengjudeildar karla í knattspyrnu þegar þeir tóku á móti HK, næstefsta liði deildarinnar, og unnu góðan sigur með öflugum stuðningi úr stúkunni.
Grindavík - HK 4:3
Það var frábær stemmning á Grindavíkurvelli í gær þegar leikur Grindavíkur og HK fór fram. Þetta er eitthvað sem undirrituðum hefur þótt vanta í sumar, fleira fólk í stúkuna til að sýna liðinu stuðning í verki. Andinn á Grindavíkurvelli var allt annar í gær og vonandi verður svo áfram – alla vega blésu stuðningsmennirnir baráttuanda í lið Grindavíkur sem sýndi sínar bestu hliðar gegn liðinu í öðru sæti deildarinnar.
Það var ekki langt liðið á leikinn þegar heimamenn komust yfir, þá var Freyr Jónsson réttur maður á réttum stað þegar Hilmar McShane reyndi skot en rann á hálum vellinum og sendi í staðinn fínustu stungusendingu inn fyrir vörn HK þar sem Freyr kláraði færið örugglega í netið (5').
Um stundafjórðungi síðar var HK fyrir áfalli þegar leikmanni þeirra var sýnt annað gula spjaldið og þar með rautt. Þrátt fyrir að vera manni færri þá jafnaði HK leikinn á 34. mínútu en Símon Logi Thasapong náði forystunni á nýjan leik fyrir Grindavík skömmu fyrir leikhlé. Þá höfðu öll spjót staðið að marki HK og hvert skotið af öðru dundi á markinu en vörn og markvörður náðu að kasta sér fyrir hvert skotið af öðru. Að lokum barst boltinn til Símonar sem rak endahnútinn á sóknina (43'). 2:1 í hálfleik.
Einum færri jöfnuðu HK-ingar á nýjan leik snemma í seinni hálfleik (52') en Grindavík náði forystu að nýju með snarpri sókn þar sem Símon Logi og Aron voru tveir á móti einum, Símon sendi á Aron sem kláraði fram hjá markverði (62').
Grindavík jók forystuna í 4:2 eftir að hafa unnið boltann eftir útspark, Kristófer Páll Viðarsson kláraði þá með fallegu skoti utan teigs (78'). HK tókst að minnka muninn í eitt mark á 89. mínútu en lengra komust gestirnir ekki og Grindavíkursigur í höfn.
Grindavík er í níunda sæti Lengjudeildarinnar en eiga fræðilegan möguleika á að enda í því fimmta falli úrslit leikja með þeim í lokaumferðinni.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, skelllti sér á völlinn og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.
Fylkir - Þróttur 4:0
Það tók Fylkismenn hálftíma leik til að brjóta vörn Þróttar á bak aftur, fyrsta markið kom eftir aukaspyrnu og skalla fyrir markið þar sem Andy Pew varð fyrir því óláni að boltinn hrökk af honum og í eigið mark (30'). Fjórum mínútum síðar kom annað mark Fylkis, nú eftir hornspyrnu (34').
Í upphafi seinni hálfleiks bættu Fylkismenn þrijða marki sínu við en þá var Rafal Stefán Daníelsson, markvörður Þróttar, búinn að hætta sér full framarlega og sóknarmaður Fylkis notfærði sér það með langskoti sem fór yfir Rafal og í markið (50').
Örskömmu síðar fékk Nikola Dejan Djuric reisupassann eftir ljótt brot (53') og Þróttarar því einum færri það sem eftir lifði leiks.
Fylkismenn skoruðu lokamarkið í frekar auðveldum sigri á 78. mínútu og tryggðu sér um leið deildarmeistaratitilinn.
Víðir - Elliði 2:3
Víðismenn voru lengi vel í góðu færi til að vinna sig upp úr 3. deild karla en tap í síðustu þremur leikjum hefur gert út af við þann draum. Víðir tók á móti Elliða í gær og lenti þremur mörkum undir áður en þeir vöknuðu til lífsins.
Jóhann Þór Arnarsson (74') og Einar Örn Andrésson (78') minnkuðu muninn fyrir Víði en skaðinn var skeður og tap því niðurstaðan. Víðir er í fjórða sæti þegar ein umferð er óleikin og komast ekki ofar á töflunni.