Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góð endurkoma Grindvíkinga dugði ekki til
Dedrick Basile sækir að Álftnesingnum Herði Axel Vilhjálmssyni. Myndir/Ingibergur Þór Jónasson
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 13. október 2023 kl. 12:20

Góð endurkoma Grindvíkinga dugði ekki til

Grindvíkingar þurftu að lúta í gras fyrir Álftnesingum í gær í Subway-deild karla í körfuknattleik. Deandre Kane, nýr leikmaður Grindavíkur, lék sinn fyrsta leik með liðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Deandre Kane var næststigahæstur Grindvíkinga með 22 stig.

Álftanes - Grindavík 86:79

Grindvíkingar voru hægir í gang í gær og Álftnesingar nýttu það vel og komust tíu stigum yfir í fyrsta leikhluta (27:17). Grindavík komst betur í takt við leikinn í öðrum leikhluta en staðan í hálfleik var 50:38 fyrir Álftanesi.

Grindvíkingar brýndu klærnar í hálfleik og mættu grimmir til þriðja leikhluta. Þeir minnkuðu muninn í fimm stig (66:61) og náðu að komast yfir í fjórða leikhluta (73:74). Heimamenn settu þá niður tvo þrista og gáfu Grindvíkingum ekki færi á að ná forystu að nýju. Grindavík tapaði að lokum með sjö stigum (86:79) og Jóhann Ólafsson, þjálfari liðsins, var óhress eftir leik. „Ég er náttúrlega bara svekktur, sérstaklega með fyrri hálfleik þar sem við erum svolítið úr takt og það vantaði alla áræðni og kraft í okkar leik. Allt annað í seinni og við bitum frá okkur,“ sagði Jóhann í viðtali við Sigurbjörn Daða Dagbjartsson, fréttamann Víkurfrétta, sem ræddi við Jóhann og Val Orra Valsson eftir leik. Viðtölin má sjá í spilaranum hér að neðan.

Valur Orri sagði Grindvíkinga hafa verið „soft“ og litlir í sér í fyrri hálfleik. „En við komum ákveðnir út í seinni, með kassann út.“

Stigaskorarar Grindavíkur: Ólafur Ólafsson 23/11/2, Deandre Kane 22/3/1, Dedrick Basile 14/3/2, Valur Orri Valsson 9/4/7, Kristófer Gylfason 6/10/3, Hilmir Kristjánsson 2/2/2, Magnús Engill Valgeirsson 2/4/0 og Arnór Helgason 1/1/0.


Ég vildi að honum myndi ganga ótrúlega vel en samt að hann muni DRULLUTAPA

Helgi Jónas Guðfinnsson setti inn skemmtilega færslu á fésbókarsíðu sína eftir leikinn í gær en Helgi er í þjálfarateymi Álftaness. Sonur Helga, Arnór, er hins vegar í liði Grindavíkur svo þeir feðgar voru andstæðingar í gær.

„Hef tekið þátt í nokkrum kappleikjum í gegnum ævina en aldrei upplifað tilfinningar eins og ég gerði í gær! Það er var ekki út af því að ég var að spila á móti félaginu sem ég spilaði með allan minn feril hérlendis heldur var ég að keppa á móti syni mínum! Fyrir leikinn var ég búinn að láta hann aðeins heyra það! Ég lét eins og þetta væri eins og venjulegur leikur en innst inni vissi ég að hann væri það ekki!

Hérna er smá innsýn hvernig mín upplifun var í gærkvöldi:

  • Ég vildi að honum myndi ganga ótrúlega vel en samt að hann muni DRULLUTAPA
  • Ég vildi að hann hitti úr vítaskotunum og skotunum sínum en samt EKKI
  • Ég vildi að hann hefði náð að troða (yfir @horduraxel ) en samt EKKI
  • Fannst villurnar sem hann fékk ekki allar sanngjarnar en var ánægður með þær út af því að við komust í bónus
  • Var á tíma hundfúll út af því að hann fékk ekki fleiri mínútur – kannski fínt að hann fékk ekki fleiri þá hefðu við kannski tapað – DJÓK hefðum aldrei tapað
  • Að leiknum loknum var ég ánægður með sigurinn en fann samt að pabba hjartað var smá kramið

Sem betur fer þarf ég ekki að upplifa þessar tilfinningar aftur fyrr en eftir áramót!“