Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Góð barátta dugði Keflvíkingum ekki
Nacho Heras skoraði annað mark Keflavíkur með hörkuskalla. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 20. september 2023 kl. 21:45

Góð barátta dugði Keflvíkingum ekki

Keflavík mætti KA á Akureyri í dag í fyrstu umferð neðri hluta Bestu deildar karla í dag. KA byrjaði leikinn af krafti og náði tveggja marka forystu á upphafsmínútunum (3' og 6').

Keflvíkingar tóku þá við sér og minnkuðu muninn á 18. mínútu. Markið kom eftir góðan sprett Axels Inga Jóhannessonar upp að endamörkum þar sem hann sendi fastan bolta fyrir mark KA, Ísak Daði mætti boltanum og sendi viðstöðulaust í markið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

KA-menn juku forystuna á ný skömmu síðar þegar Ásgeir Sigurgeirsson skaut úr þröngu færi utan teigs, boltinn fór yfir Mathias Rosenörn í marki Keflavíkur og hafnaði í fjærhorninu (24'). Staðan 3:1 fyrir norðanmenn í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks tók Sami Kamel aukaspyrnu rétt fyrir utan teig heimamanna og sendi fyrirgjöf á fjærstöngina, þar mætti Nacho Heras og stangaði boltann í netið (47'). Munurinn aftur orðinn eitt mark.

Þrátt fyrir góða baráttu og nokkur ágætis tækifæri tókst Keflvíkingum ekki að jafna leikinn og í blálokin gerðu KA-menn út um vonir Keflvíkinga þegar þeir skoruðu fjórða mark sitt (88'). Úrslitin því 4:2 og Keflavík situr eitt á botninum með tólf stig. Næstu lið eru ÍBV og Fram sem hafa tuttugu stig hvort, Fylkir er með 22 stig, HK 26 og KA 32 stig. Staðan er því ekki gæfuleg fyrir Keflavík þegar fjórar umferðir eru eftir.

Keflavík mætir HK á heimavelli um næstu helgi. Leikið verður á sunnudag og hefst leikurinn klukkan 14:00 á HS Orkuvellinum.