Glímumenn úr Njarðvík frábærir í Skotlandi
Bjarni og Ægir bestir í unglingaflokki
Íslenska landsliðið í glímu keppti í keltneskri glímu á móti í Skotlandi um síðustu helgi. Njarðvíkingar, sem áttu 5 landsliðsmenn af 11, áttu frábært mót en keppt var í þremur þyngdarflokkum unglinga og sigruðu Njarðvíkingarnir Ægir Már Baldvinsson og Bjarni Darri Sigfússon sína þyngdarflokka.
Ægir og Bjarni öttu kappi í úrslitum þungavigtar unglinga og sigraði Bjarni Darri þá rimmu. Framganga þeirra félaga þótti það eftirtektarverð að þeir voru kallaðir upp í lok keppni og hylltir af þúsundum áhorfenda sem lagt höfðu leið sína á mótið. Það þótti tíðindum sæta að fjögur efstu sætin í opnum flokki unglinga færu til Íslendinga og þrjú efstu sætin áttu Njarðvíkingar, því að annar 14 ára efnilegur Njarðvíkingur kom og nældi sér í þriðja sætið en það var hinn ungi Halldór Matthías Ingvarsson.
Ægir Már Baldvinsson var svo valinn glímumaður mótsins í unglingaflokki í kjölfarið.
En Ægir Már var alls kostar ekki hættur því eftir unglingaflokkana var hann einnig skráður til leiks í fullorðinsflokk, búinn að glíma 12 glímur í unglingaflokki fyrr um daginn. Kappinn gerði sér lítið fyrir og sigraði fullorðins flokk undir 60 kg sem er hreint magnaður árangur hjá þessum efnilega bardagamanni sem hefur átt frábært ár.
Guðmundur Stefán Gunnarsson keppti svo í opnum flokki fullorðinna sem einnig er hluti bresku meistaramótaraðarinnar en það er skemmst frá því að segja að Guðmundur sigraði 15 viðureignir og komst í lokaúrslit mótsins. Í úrslitaglímunni atti hann kappi við Frazier Hirsh, Evrópumeistara í greininni, en viðureignir þerra voru langar en í lokinn sigraði Frazier. Með þessari frammistöðu nældi Guðmundur sér í silfur á þessu sterka móti.
Víkurfréttir óska Njarðvíkingum til hamingju með frábæran árangur á þessu sterka móti og ljóst að framtíðin er þeirra.