Glæstur árangur ÍRB um helgina
Innanhúsmeistaramótið í sundi í 50m laug fór fram í innilauginni í Laugardal um helgina þar sem ÍRB fór á kostum og setti m.a. Íslandsmet í 4x100m fjórsundi í karlaflokki. Karlasveit ÍRB synti á tímanum 3:59:77 mín. en gamla metið átti karlasveit Ægis en sá tími var 4:00:70 mín. frá því í fyrra. Karlasveitina skipuðu þeir Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Guðni Emilsson, Birkir Már Jónsson og Hjalti Rúnar Oddsson.
Föstudagur
Sundmenn ÍRB unnu til fjögurra titla á föstudeginum, eða fyrsta keppnisdegi mótsins. Soffía Klemenzdóttir bætti 12 ára gamalt met í flokki telpna 13-14 ára í 400m fjórsundi þegar hún kom önnur í mark á frábærum tíma, Jóna Helena Bjarnadóttir náði einnig stórum áfanga í sama sundi þegar hún kom þriðja í mark og náði um leið lágmörkum fyrir unglingalandslið SSÍ. Þeir einstaklingar sem urðu Íslandsmeistarar á föstudag eru: Birkir Már Jónsson í 100m skriðsundi, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson í 50m baksundi og Hilmar Pétur Sigurðsson í 1500m skriðsundi, en þetta er fimmta árið í röð sem Hilmar vinnur titil í þessari grein.
Laugardagur
Á öðrum keppnisdegi vann ÍRB fimm af þeim tíu einstaklingsgreinum sem keppt var í. Soffía Klemenzdóttir hóf daginn fyrir ÍRB og varð Íslandsmeistari í 200m flugsundi á nýju telpnameti, Birkir Már Jónsson varð síðan Íslandsmeistari í 200m flugsundi, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson varð Íslandsmeistari í 100m baksundi, Erla Dögg Haraldsdóttir varð íslandsmeistari í 50m bringusundi þrátt fyrir að vera nýstigin uppúr flensu og Hjalti Rúnar Oddson náði síðan í fimmta titil dagsins.
Að laugardeginum loknum voru níu Íslandsmeistaratitlar í höfn hjá ÍRB eða einum fleiri en á öllu mótinu í fyrra.
Sunnudagur
Sundfólk ÍRB hélt áfram að raka inn meistaratitlum og slá met á IM 50 í Laugardalnum á sunnudeginum og komu þá fimm titlar til viðbótar í hús og urðu þeir að endingu 14 talsins. Þetta er besti árangur ÍRB á IM 50 frá upphafi.
Soffía Klemenzdóttir setti enn eitt telpnametið og nú í 100m flugsundi en alls setti hún þrjú telpnamet um helgina, í 50, 100 og 200m flugsundi.
Þeir sem urðu Íslandsmeistarar á sunnudag voru Birkir Már Jónsson í 400m skriðsundi og 100m flugsundi, Soffía Klemenzdóttir í 200m fjórsundi, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson í 200m baksundi og Erla Dögg Haraldsdóttir í 100m bringusundi.
Að móti loknu á ÍRB sex fulltrúa í unglingalandsliði SSÍ sem er að fara á alþjóðlegt mót í Luxemborg í apríl, en meistaramótið var lokamótið til þess að ná lágmörkum. Þau sem eru að fara með unglingalandsliðinu til Luxemburgar eru: Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Elfa Ingvadóttir, Guðni Emilsson, Gunnar Örn Arnarson, Helena Ósk Ívarsdóttir og Jóna Helena Bjarnadóttir.
VF-mynd/ Hópur ÍRB í sundlauginni í Vatnaveröld í Reykjanesbæ