Glæsimark Edons dugði ekki til
Keflavík tók á móti Fylki í Bestu deild karla í knattspyrnu í gær. Þetta var síðasti heimaleikur Keflvíkinga á tímabilinu Keflavík fer til Eyja í lokaumferðinni.
Keflavík hafði eins marks forystu í hálfleik en Fylkismenn léku heimamenn grátt í seinni hálfleik og lönduðu sanngjörnum sigri að lokum.
Heimamenn léku vel í fyrri hálfleik og náðu forystu rétt áður en blásið var til hálfleiks með góðu marki frá Edon Osmani. Markið kom upp úr hornspyrnu, Fylkismenn skölluðu fyrirgjöfina frá en Edon fékk boltann og smellti honum í gegnum þvöguna og út við stöng í fjærhornið (45'+1).
Það tók Fylkismenn ekki langan tíma að jafna en þeir gerðu atlögu að marki Keflavíkur. Ásgeir Orri Magnússon, markvörðurinn ungi hjá Keflavík, komst fyrir skot af stuttu færi. Boltinn hrökk fyrir fætur sóknarmanns Fylkis sem skoraði fyrir opnu marki (51').
Við jöfnunarmarkið var eins og allur vindur færir úr heimamönnum og á 64. mínútu tóku gestirnir forystu þegar þeir skoruðu annað mark sitt, nú eftir hornspyrnu.
Nokkrum mínútum síðar fór Ásgeir Orri í glæfralegt úthlaup og eftir samstuð við sóknarmann Fylkis var dæmd vítaspyrna á Keflavík. Ásgeir fór í rétt horn en náði ekki til boltans og staðan 3:1 (70').
Athyglisvert atvik átti sér stað á 79. mínútu þegar Sindri Þór Guðmundsson kom inn á í stað Muhamed Alghoul en Sindri átti eftir að staldra stutt við því hann fékk að líta rauða spjaldið á sömu mínútu. Sindri fór þá í háskalega tæklingu og dómarinn sýndi honum beint rautt spjald. Þetta tók 38 sekúndur með skiptingunni en fréttaritari Fótbolti.net sagði að samkvæmt skeiðklukkunni hefði Sindri ná 21 sekúndu eftir að leikurinn fór í gang aftur.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og myndasafn er neðst á síðunni.