Glæsilegri hnefaleikakeppni lokið
Í kvöld fór fram sögulegt mót í hnefaleikum þar sem Hnefaleikafélag Reykjavíkur (HR) og Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) áttust við í fyrsta liðamóti íslenskra félaga síðan hnefaleikar voru lögleiddir á ný.
Öll umgjörð um mótið var með miklum ágætum og var Ljónagryfjan í Njarðvík full út úr dyrum þar sem áhugamenn um íþróttina létu sig ekki vanta á þennan merka atburð.
Fimm bardagar fóru fram í kvöld og voru úrslit sem hér segir:
Einar Sverrisson (HR) vann Árna Pál Jónsson (HFR) í þungavigt
Önundur Jónasson (HFR) vann Birki Guðbjartsson (HR) í veltivigt
Heiðar Sverrisson (HFR) vann Gunnar Guðjónsson(HR) í veltivigt
Þórir Þórisson (HR) vann Vikar Sigurjónsson (HFR) í létt þungavigt
Lárus Mikael Knudsen (HR) vann Tómas Guðmundsson (HFR) í yfir þungavigt
Þannig er ljóst að Hnefaleikafélag Reykjavíkur bar sigur úr býtum í fyrstu liðakeppni seinni tíma, en það er alveg öruggt að þetta verður ekki sú síðasta.
Guðjón Vilhelm Sigurðsson, þjálfari HFR, var í skýjunum með það hve framkvæmdin heppnaðist vel í kvöld, en hann átti ekki til orð til að lýsa ánægju sinni með móttökurnar sem þetta mót fékk.
„Mig hefði bara aldrei órað fyrir því að það væri svona mikill stuðningur við íþróttina hér á svæðinu! Ég er ekki með nákvæma tölu um áhorfendur, en þeir skiptu hundruðum í kvöld og það er með því mesta sem þekkist í þessu, ef miðað er við höfðatölu. Ég vil bara nota tækifærið til að þakka bæði áhorfendum og bæjarfélaginu fyrir ómetanlegan stuðning.“
HFR tapaði þremur af fimm bardögum í kvöld, en Guðjón var þrátt fyrir það alls ekki ósáttur við úrslitin. „Við tefldum fram alveg nýju liði hér í kvöld þar sem sá reyndasti er bara búinn að æfa í átta mánuði. Ég var alveg undirbúinn fyrir því að við hefðum tapað öllum bardögunum í kvöld, en strákarnir stóðu sig ótrúlega vel. Raunar fannst mér að Tomma hefði átt að vera dæmdur sigur í sínum bardaga, en ég er nú ekki alveg hlutlaus.“