Glæsileg inniaðstaða Golfklúbbs Suðurnesja
– Tveir golfhermar, níu holu púttflöt og aðstaða til að æfa sveifluna.
Golfklúbbur Suðurnesja hélt opið hús um miðjan desembermánuð í nýlegri inniaðstöðu klúbbsins sem er í gömlu slökkvistöðinni að Hringbraut 125 í Reykjanesbæ. Gestum og gangandi bauðst þá að þiggja kaffi og smákökur auk þess stóð þeim til boða að prófa aðstöðuna og fá kennslu á golfhermana.
Vel var mætt á opna húsið þótt undirbúningur jóla hafi verið í algleymingi hjá flestum. Um fimmtíu manns kynntu sér það sem í boði var og þá gátu gestir tekið þátt í púttmóti og unnið tíma í golfhermunum. Þorsteinn Geirharðsson og hans fjölskylda stóðu uppi sem sigurvegarar eftir daginn.
Sveinn Björnsson, formaður GS, var ánægður með daginn og sagði að almenn ánægja hafi verið meðal fólks með aðstöðuna sem í boði er. „Við munum opna aðstöðuna í byrjun nýs árs og hún verður meira og minna opin í sjálfsafgreiðslu,“ sagði Sveinn. „Það verður opið fyrir bókanir á heimasíðu klúbbsins (gs.is)
og svo fær fólk sendan kóða til að komast inn í aðstöðuna. Við höfum svo myndavélakerfi á staðnum sem tekur upp það sem fer fram og ef fólk er að misnota aðstöðuna, t.d. ef það fer að stelast í hermana eða eitthvað slíkt, þá fær það sektir fyrir – en við treystum fólki og búumst ekki við að til þess komi.“
– En getur hver sem er bókað sig á vefnum, líka þeir sem eru ekki meðlimir í GS?
„Já, við viljum að sem flestir geti nýtt sér aðstöðuna og t.d. geta PGA-golfkennarar fengið að leigja tíma í hermana ef þeir svo kjósa. Þetta er unnið í samvinnu við hann Sigurpál [Geir Sveinsson], íþróttastjórann okkar, en hann heldur utan um það sem fer fram þarna.“
Sigurpáll Geir Sveinsson, íþróttastjóri GS, var með sýnikennslu á golfhermunum á opna húsinu og leyfði fólki að prófa. Hann útskýrði hvernig tækin virkuðu í grunninn og hvaða möguleikar væru í boði fyrir kylfinga til að nýta sér hermana við æfingar.
Sigurpáll segir að stefnan sé að hafa opið hús flesta daga vikunnar. „Þegar ég tala um opið hús þá meina ég að allir geta bókað tíma í herma eða æfingaaðstöðuna okkar. Við erum með tvo golfherma, í golfhermi eitt eru sérstakir boltar notaðir en í golfhermi tvö geta kylfingar notað sína eigin bolta og verðið er 4.000 krónur á klukkutímann fyrir félaga í GS en 5.500 krónur fyrir aðra,“ sagði Sigurpáll og bætti við að í aðstöðunni væri nýbúið að leggja nýjustu gerð af púttteppi með níu holum. Þá væri aðstaða fyrir þrjá til að slá í net og að auki væri kaffiaðstaða og píluspjald. „Við munum setja í loftið á gs.is strax eftir áramót tilkynningu um opnun aðstöðunnar,“ sagði hann að lokum.