Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Glaðir kylfingar á opnu golfmóti í Leirunni – völlurinn opinn á morgun
Laugardagur 13. febrúar 2010 kl. 17:06

Glaðir kylfingar á opnu golfmóti í Leirunni – völlurinn opinn á morgun

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um 120 kylfingar mættu í Leiruna í dag og tóku þátt í fyrsta opna 18 holu golfmóti ársins 2010. Smá bleyta var um tíma en það kom ekki að sök því kylfingar brostu sínu breiðasta og léku golf við fínar aðstæður á gulgrænni Leirunni.

„Þetta er bara frábært, völlurinn, veðrið og félagsskapurinn. Svona eiga laugardagar að vera,“ sagði Keiliskylfingur þegar hann kom inn í golfskála eftir 18 holurnar og settist við borð, með vöfflu og kaffi í hönd og auðvitað skorkortið sem hann átti eftir að klára.

Ekki er vitað til að 18 holu golfmót hafi verið haldið á Íslandi í febrúar áður þar sem leikið er á vellinum eins og sumar væri, á teigum og sumarflötum. Þær voru vissulega ekki í ástandi eins og í júli, eðlilega, nokkuð hægari og stundum hoppaði boltinn ef púttið var ekki ákveðið. Það skipti ekki máli, kylfingar voru svo glaðir og voru margir hverjir eins og beljur að vori, höggin misjöfn en brosið skammt undan og keppnisskapið ekki alveg jafn mikið.„Þetta hefur gengið eins og í sögu og við munum hafa völlinn opinn á morgun, sunnudag. Það verður sérstakt vetrargjald fyrir 18 holu hring, 2000 krónur,“ sagði Gunnar Jóhannsson, framkvæmdastjóri GS.

Áhugasamir kylfingar geta mætt í Leiruna á morgun. Ræst verður út frá kl.10 til 14.

Eins og sjá má á þessum myndum var líf og fjör í Leirunni í dag. VF-myndir/pket.

--