Gjafmildi Grindvíkinga færði Keflvíkingum sigur
Grindvíkingar af toppnum - stigi munar á Suðurnesjaliðinum
Keflvíkingar unnu mikilvægan sigur á grönnum sínum úr Grindavík í 1. deild karla í fótbolta í dag. Leikurinn fór fram í Bítlabænum og unnu heimamenn 2-0 sigur með mörkum frá Magnúsi Þóri Matthíassyni og Sigurbergi Elissyni.
Það er hægt að tala um óskabyrjun Keflvíkinga en að sama skapi um martröð fyrir Grindvíkinga. Gestirnir færðu Keflvíkingum þá mark á silfurfati þegar Hlynur Hlöðversson markvörður þeirra sendi aukaspyrnu beint fyrir fætur Magnúsar Matthíassonar sem skoraði auðveldlega í autt markið strax á 2. mínútu. Klaufalegt hjá Grindvíkingum sem þó voru sterkari aðilinn framan af leik. Þeir héldu boltanum vel en komust lítið áleiðis gegn vel skipulagðri vörn Keflvíkinga sem lágu aftarlega á vellinum og sóttu hratt þegar færi gafst.
Það var ekki mikið um hættuleg færi í fyrri hálfleik og liðin voru að fikra sig áfram. Sóknarleikur beggja liða var ekkert sérstaklega beittur og því má auðveldlega tala um miðjumoð. Í síðari hálfleik breyttist ekki mikið í leiknum. Grindvíkingar fengu mikið af hornspyrnum og nokkrum aukaspyrnum sem nýttust ekki nægilega vel.
Það var svo á 66. mínútu sem Keflvíkinga fengu aðra gjöf frá Grindvíkingum. Þá var Magnús Matthíasson á leið út úr teig Grindvíkinga eftir hornspyrnu, þegar Hlynur markvörður virðist fella hann. Dómarinn benti á punktinn og vítaspyrna niðurstaðan. Sigurbergur Elisson steig upp og sendi boltann rakleiðis í netið. Keflvíkingar því komnir í kjörstöðu og á brattan að sækja fyrir Grindvíkinga. Talsverður hiti færðist í leikinn eftir seinna markið en menn héldu þó haus. Keflvíkingar lönduðu sigrinum og eru því enn ósigraðir í 1. deildinni.
Grindvíkingar sem voru með fullt hús stiga fyrir leikinn fóru niður í 2. sæti með ósigrinum. Keflvíkingar eru nú aðeins einu stigi á eftir þeim gulklæddu í 3. sæti með átta stig.