Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Get ekki beðið eftir að byrja
Gylfi segir mikinn mun á þjálfun karla- og kvennaliða en honum finnst bæði „alveg fáránlega skemmtilegt“. Mynd af Facebook-síðu Gylfa
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 13. október 2024 kl. 06:07

Get ekki beðið eftir að byrja

„Þetta leggst mjög vel í mig, bara geggjað,“ sagði Gylfi Tryggvason, nýráðinn þjálfari sameiginlegs meistaraflokks kvenna Grindavíkur og Njarðvíkur, þegar Víkurfréttir slógu á þráðinn til hans eftir ráðninguna.

„Það er mikill metnaður lagður í þetta frá báðum félögum og ég er mjög spenntur fyrir að vinna í svona metnaðarfullu umhverfi – get ekki beðið eftir að byrja.“

Við byrjum á að biðja Gylfa að segja okkur lauslega frá sínum þjálfaraferli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég er alinn upp í Árbænum, Fylkismaður, og er búinn að vera að þjálfa í yngri flokkum Fylkis, Stjörnunnar, HK. Svo var ég að þjálfa meistaraflokk Árbæjar, sem var stofnað 2022 og við fórum upp úr fjórðu deildinni í fyrstu tilraun, enduðum síðan í þriðja sæti í þriðju deildinni í fyrra. Þá fór ég inn í teymið hjá kvennaliði HK, var þar sem aðstoðarþjálfari og hér er ég í dag,“ segir Gylfi.

Nú hefur þú verið viðloðandi meistaraflokksstarf hjá körlum og konum. Hver finnst þér vera helsti munurinn á þessu tvennu?

Nú verður Gylfi kjaftstopp og skellir upp úr eftir smá stund. „Þetta er það stór spurning að ég held að ég geti ekki svarað henni í stuttu máli. Ég get sagt að það er mjög mikill munur – og ég get sagt að mér finnst bæði alveg fáránlega skemmtilegt.“

Hver eru markmiðin hjá ykkur fyrir komandi tíma?

„Ég held að markmiðin hjá félögunum sé að ná stöðugleika, við erum klárlega í uppbyggingarferli. Ég held að það að mynda sterka heild sé aðalmálið. Við erum með góðan kjarna og þurfum að byggja ofan á hann með góðum styrkingum og taka þetta í skrefum.

Ég var að hitta stelpurnar í fyrsta sinn og næsta mál á dagskrá er að ræða við þær, einhverjar eru að renna út á samning og svo þurfum við að bæta við. Við þurfum að stækka hópinn talsvert,“ segir Gylfi.

Formenn knattspyrnudeilda Grindavíkur, Haukur Guðberg Einarsson, og Njarðvíkur, Brynjar Freyr Garðarsson, handsala samninginn við Gylfa.
Fyrir aftan þá standa leikmenn meistaraflokks Grindavíkur/Njarðvíkur.


Verður gaman að taka þátt í alvöru Suðurnesjaslag

Nú þegar þú ert farinn að þjálfa hér á Suðurnesjum þarftu að fara að koma þér inn í Suðurnesjaríginn, stærstu leikirnir á næsta ári verður þegar þið spilið gegn Keflavík. Þá er allt lagt undir.

„Já, það verður gaman. Fá alvöru Suðurnesjaslag. Ég var með hlaðvarpið Ástríðan, þar sem við vorum að fjalla um neðri deildirnar. Það var einmitt mjög gaman þegar Reynir og Víðir voru að mætast. Þannig að það verður gaman að fá að taka þátt í því,“ sagði Gylfi að lokum.